Rannsaka þurfi plastbarkamálið af óháðri nefnd

22.01.2017 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki er nóg að Landspítalinn og Háskóli Íslands setji á laggirnar rannsóknarnefnd til að skoða aðkomu sína að umdeildri plastbarkaígræðslu. Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fráfarandi varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Óháð rannsókn verði að fara fram.

RÚV hefur síðustu þrjár vikur sýnt þriggja þátta heimildarmynd sænska sjónvarpsins um plastbarkaígræðslur ítalska læknisins Paolo Macchirarinis. Hann græddi plastbarka í menn án þess að prófa aðferðina fyrst á dýrum eða hafa til þess öll tilskilin leyfi. Flestir þeirra sem fengu plastbarka eru látnir, þar á meðal Andemariam Beyene, sem dvaldist hér á landi og hlaut læknismeðferð á Landspítalanum fyrir og eftir aðgerð. Tveir íslenskir læknar eru meðhöfundar, ásamt 26 öðrum læknum, að vísindagrein Macchiarinis þar sem fullyrt var að aðgerðin á Andermariam hafi tekist vel. Þessar niðurstöður voru ekki í samræmi við niðurstöður rannsóknar á Andermariam á Landspítalanum nokkru áður sem sýndi bæði sveppa- og bakteríusýkingu í barkanum og gat á öndundarveginum inn í líkamann. Andermariam lést tveimur og hálfu ári eftir aðgerðina. Í Svíþjóð er nú opinber rannsókn á því hvort Macchiarini hafi gerst sekur um manndráp af gáleysi.

Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, fól stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að kanna hvort fela ætti óháðri rannsóknarnefnd til að skoða aðkomu Landspítalans og Háskóla Íslands að plastbarkamálinu. Nefnin lauk ekki umfjöllun sinni fyrir þinglok. Landspítalinn og Háskólinn settur sjálfir á laggirnar eigin rannsóknarnefnd. 

Fréttastofa bauð Landspítalanum og læknunum tveimur að tjá sig um málið en í svari frá upplýsingafulltrúa spítalans er það afþakkað. Rektor Háskóla Íslands vildi heldur ekki tjá sig en segist ætla að gera það þegar nefndin háskólans og Landspítalans hafi lokið störfum. Landlæknir segir að hann hyggist ekki koma að málinu. 

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir hlutlaus nefnd þurfi að skoða aðkomu Landspítalans og Háskóla Íslands að málinu. 

„Ég teldi æskilegt að þetta mál yrði skoðað. Þetta snýst um trúverðugleika og traust á Landspítalanum og Háskólanum. Þannig að ég tel að það séu mörg rök fyrir því að þetta sé rannsakað sérstaklega og ekki bara af Háskólanum sjálfum. Ég sé svo sem ekkert að því að Háskólinn og Landspítalinn skoði sín eigin mál og rannsaki þau en ég tel kannski mikilvægt að þetta sé skoðað líka af utanaðkomandi aðila sem ekki er svona tengdur málinu eins og háskólinn og Landspítalinn eru. Fyrrverandi heilbrigðisráðherra leit þetta mál mjög alvarlegum augum og lagði áherslu á að þetta yrði skoðað gaumgæfilega af hálfu löggjafans og stjórnvalda,“ segir Brynjar. Tekur þú undir með fyrrverandi heilbrigðisráðherra að líta þetta mál mjög alvarlegum augum? „Já ég geri það,“ segir Brynjar.