Rænt af fæðingardeildinni, fannst 18 ára

14.01.2017 - 04:09
Mynd með færslu
Mike Williams, lögreglustjóri í Jacksonville, greindi frá niðustöðum DNA-rannsókna á Kamiyah Mobley og handtökunni á ræningja hennar á fréttamannafundi. Á myndinni eru einnig saksóknari og fulltrúar FBI og Homeland Security.  Mynd: AP
Stúlkubarninu Kamiyah Mobley var rænt af fæðingardeild sjúkrahúss í Jacksonville í Flórída í júlí 1998, átta klukkustundum eftir að hún kom í heiminn. Núna, ríflega 18 árum síðar, er hún fundin, í Walterboro í Suður-Karólínu. Þar hefur hún alið mestallan sinn aldur með Gloriu Williams, sem rændi henni á sínum tíma, og talið hana móður sína. Kamiyah fannst eftir ábendingu sem barst stofnun á vegum dómsmálaráðuneytisins bandaríska, sem sérhæfir sig í málefnum horfinna barna.

Ábendingin barst á síðasta ári, ein 2.500 slíkra sem borist hafa síðan Kamiyah var rænt. Þessi ábending þótt nógu trúverðug til að henni væri fylgt eftir. Lífsýni leiddu hið sanna í ljós og Gloria Williams, sem er 51 árs, var handtekin í gærmorgun, ákærð fyrir barnsrán. Fjölskylda Kamiyah hefur verið upplýst um þetta allt saman og er í skýjunum, sem vonlegt er.

Kamiyah er enn að vinna úr tíðindunum, segir Mike Williams, lögreglustjóri í Jacksonville í Flórída. Hann segir það alfarið hennar að ákveða, hvað hún gerir næst, hvort hún vilji hitta blóðforeldra sína og þá hvenær, enda fullorðin og sjálfráða kona í dag. Hún þurfi tíma og næði til að átta sig á þessum nýja veruleika.

Sem fyrr segir var Kamiyeh aðeins átta klukkustunda gömul þegar henni var rænt. Gloria Williams gekk þá inn í sjúkrastofu þeirra mæðgna og gaf sig út fyrir að vera í starfsliði sjúkrahússins. Hún sagði móðurinni, Shanara Mobley, að stúlkan væri með hita og því þyrfti að líta aðeins á hana. Síðan tók hún telpukornið með sér út úr sjúkrastofunni og hvarf. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV