Ráðleggur fólki að skila gjöfum fyrr en seinna

28.12.2017 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna segir brýnt að draga það ekki um of að skila jólagjöfum. Hún ráðleggur fólki að hafa samband við samtökin ef upp kemur ágreiningur um skilarétt. 

Þó flestir vandi sig við að velja jólagjafir þá hittir ekki allt í mark. Neytendasamtökunum berst árlega fjöldi fyrirspurna frá fólki sem lendir í vandræðum við að skila jólagjöfum í verslanir. Flestar verslanir láta skiptimiða fylgja vörum með tilgreindum skilafresti, en vandamál geta skapast sökum þess hve snemma útsölur byrja. 

„Aðallega sem við fáum kvartanir yfir er að útsölur eru byrjaðar og það eru deilur um það hvaða verð á að fara á inneignarnótuna, hvort það er upphaflegt verð vörunnar eða útsöluverð,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna.

Þessi atriði eru ekki bundin í lög, ekki frekar en skilafresturinn sjálfur. Gefnar voru út leiðbeinandi reglur um síðustu aldamót og samkvæmt þeim á neytandi rétt á upphaflegu verði vöru, þótt seljandi geti krafist þess að hann noti ekki inneignarnótuna fyrr en eftir útsölu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Brynhildur ráðleggur fólki að gera ráðstafanir eins fljótt og auðið er. Skilafrestur er oft stuttur, en samkvæmt reglunum er miðað við 14 daga. „Og ef fólk býr úti á landi og verslunin er einhvers staðar, segjum bara í Reykjavík, þá reynist oft vel að hringja og útskýra að maður komist ekki fyrr en liðið er á árið,“ segir hún. 

Flestir vilji koma til móts við viðskiptavini, en þó gæti nokkurrar óvissu um skilarétt, bæði hjá seljendum og neytendum, og þá geti orðið ágreiningur. „Og ef það er eitthvað vesen, þá endilega láta okkur vita. Við viljum vita hvaða verslanir það eru sem eru óliðlegar,“ segir Brynhildur. 

 

Mynd með færslu
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV