Plastbarkamálið vekur óöryggi sjúklinga

12.10.2017 - 19:32
Sú ákvörðun sænska yfirvalda að fella niður mál á hendur Paolo Macchiarini sem græddi plastbarka í fólk, vekur óöryggi meðal sjúklinga, segir læknir og siðfræðingur. Spurningin vakni hvort hægt sé að gera rannsóknir á mönnum í leyfisleysi án þess að það hafi afleiðingar fyrir lækninn.

Macchiarini var ákærður fyrir að hafa verið valdur að dauða þriggja sjúklinga sem fengu ígræddan plastbarka í Svíþjóð. Alls græddi Macchiarini plastbarka í níu sjúklinga og eru átta þeirra látnir. Fyrsti sjúklingurinn til að fá plastbarka var Andermariam Beyene. Hann var búsettur hér á landi og aðstoðaði íslenskur læknar Macchiarini við aðgerðina. Beyene lést fyrir þremur árum.

Macchiarini græddi plastbarka í menn án þess að prófa aðferðina fyrst á dýrum eða hafa til þess öll tilskilin leyfi. Saksóknari í Svíþjóð komst að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hefði tekið óþarfa áhættu og sýnt af sér gáleysi en ekki sé unnt að halda máli á hendur honum til streitu.

„Það er ekki hægt að sanna með óyggjandi hætti að hann hafi stytt líf hjá þessum sjúklingum eða valdið þeim skaða. Það er erfitt að sanna þetta í þessu tilviki. En það sem allir eru sammála um að reglur voru brotnar, mjög mikilvægar siðareglur voru brotnar. Það var ekki staðið við tilskilin leyfi og það voru framkvæmdar rannsóknir á fólki, án leyfis og án þess að það væru gerðir dýratilraunir á undan, sem er mjög alvarlegt. Það virðist ekki vera hægt að dæma fyrir þetta. Svíar eru mjög hugsi yfir þessum niðurstöðum,“ segir Ástríður Stefánsdóttir,læknir og dósent siðfræði við Háskóla Íslands.

Yfirvöld í Svíþjóð hafa lýst því yfir að endurskoða þurfi lög. „Meðan ekki er hægt að gera neitt í þessu, þá veldur það því að sjúklingar eru óöryggir. Hvað með sjúklinga? Er hægt að gera hvaða rannsóknir á þeim án tilskilinna leyfa og það hefur engar afleiðingar?,“ spyr Ástríður.

Íslensku læknarnir tveir voru meðhöfundar að að vísindagrein Macchiarinis í Lancet þar sem segir að aðgerðin á Andermariam Beyene hafi tekist vel. Háskóli Íslands og Landspítalinn skipuðu þriggja manna nefnd  til að skoða hvort ákvarðanir íslenskra heilbrigðisstarfsmanna á Landspítalanum hafi verið í samræmi við lög, reglur og verkferla. Hún á að skila niðurstöðu 6. nóvember. 

„Þetta mál þá hefur það sýnt sig aftur og aftur að okkur skortir tilskylda farvegi fyrir það og við eigum eftir að vinna upp þá farvegi. þannig að ég held að það sé mikil vinna óunnin hjá okkur,“ segir Ástríður.

Fréttinni hefur verið breytt. Ranglega var sagt í upprunalegu fréttinni að tveir íslenskir læknar hefðu tekið þátt í aðgerðinni á Beyene. Hið rétta er að einn íslenskur læknir aðstoðaði Macchiarini við plastbarkaígræðsluna.