Plastbarkamálið: Þöggunarmenning og hræðsla

26.01.2017 - 11:32
Þöggunarmenning og hræðsla við að gagnrýna yfirmenn voru á meðal ástæðna þess að ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini komst upp með að framkvæma þrjár plastbarkaaðgerðir á Karolinska sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Kjell Asplund, formaður siðaráðs lækninga í Svíþjóð og fyrrum landlæknir þar er höfundur skýrslu um þátt sjúkrahússins í málinu. Hann er afar gagnrýninn og segir það hneyksli út frá bæði læknisfræðilegum og siðferðislegum ástæðum.

Þann 9. júní 2012 hélt Háskóli Íslands málþing í tilefni af því að ár var liðið frá fyrstu plastbarkaígræðslunni. Á heimasíðu Háskólans stóð meðal annars:

Íslenskir vísindamenn áttu stóran hlut í því máli en Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild HÍ og yfirlæknir á Landspítalanum, framkvæmdi aðgerðina í samstarfi við Paolo Macchiarini, prófessor við Karolinska Institutet í Stokkhólmi og samstarfsmenn hans. 

Á þeim tíma var ekki að skilja annað af opinberri umfjöllun en að um miklar framfarir væri að ræða í læknavísindum, nýja aðferð sem bjargað gæti fjölda mannslífa. Í skýrslu sem gerð var um þátt Karolinska sjúkrahússins í málinu og gefin út í lok ágúst árið 2016, var þetta málþing gagnrýnt. Það var tekið sem dæmi um það hvernig fyrsti plastbarkaþeginn, Andemariam Beyene, var nýttur í markaðslegum tilgangi.

Stóra spurningin í málinu er hvort ástand Andemariams hafi verið fegrað - hvort þeir læknar sem önnuðust hann, þar með talið íslenskir læknar - hafi ekki greint rétt frá líðan hans eða vandræðum sem komu upp í kjölfar aðgerðarinnar.

Önnur spurning í málinu snýr að vísindagrein sem birt var í tímaritinu Lancet um sex mánuðum eftir fyrstu aðgerðina. Íslensku læknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson eru meðhöfundar að greininni sem hefur verið harðlega gagnrýnd. Lancet skoðar nú hvort draga eigi greinina til baka en hefur ekki tekið endanlega ákvörðun. Asplund segir að meðhöfundar greinarinnar geti ekki firrt sig ábyrgð á innihaldi hennar. Það gangi ekki að telja sig einungis ábyrgan fyrir nokkrum línum sem maður skrifar sjálfur.

Ef í ljós kemur að upplýsingar í greininni reynast rangar og hún því dregin til baka hlýtur sú spurning að vakna hvort hún hafi á einhvern hátt stuðlað að því að fleiri aðgerðir voru gerðar. Í skýrslu Asplunds segir meðal annars að möguleg ónákvæmni í rannsóknum hafi haft þau áhrif að ástandi Andemariams var lýst á of jákvæðan hátt og þess vegna hafi ekki verið dregið í efa að gera ætti aðgerðir á fleiri sjúklingum. Í febrúar árið 2013 framkvæmdi Macchiarini til að mynda aðgerð á þriggja ára stúlku í Bandaríkjunum og var þá sérstaklega vísað til þess að Andemariam væri enn á lífi, tveimur árum eftir aðgerð.

Hefur farið nokkra hringi í Svíþjóð

Plastbarkamálið hefur reyndar farið nokkra hringi í sænska kerfinu. Þáverandi forstjóri Karolinska sjúkrahússins, Birgir Jakobsson sem nú er landlæknir, ákvað að endurnýja ekki samninginn við Macchiarini í nóvember 2013. Ástæðan sem gefin var upp var að hann hefði ekki sinnt sjúklingum nægjanlega vel eftir aðgerð enda var hann lítið í Stokkhólmi vegna starfa sinna í öðrum löndum. Í október 2013 hafði verið ákveðið að Macchiarini fengi ekki að gera fleiri aðgerðir við Karolinska. Nauðsynlegt var talið að gera frekari rannsóknir, til að mynda á dýrum. Karolinska stofnunin, sem er staðsett gegnt sjúkrahúsinu, ákvað hins vegar að framlengja sinn samning við Macchiarini. 2014 leggja fjórir læknar svo fram kæru gegn honum.

Fyrsta skýrslan sem gerð var um málið var mjög gagnrýnin og var illa tekið af Karolinska og þeim sem stóðu að aðgerðinni. Karolinska stofnunin ákvað því að gera sína eigin skýrslu sem kom út haustið 2015. Í stuttu máli var niðurstaða hennar að ekkert óeðlilegt hefði átt sér stað, að aðgerðin hefði verið nauðsynleg og að ekki væri um að ræða vísindalegt misferli. Karolinska stofnunin var á þessum tíma sökuð um að þagga málið niður.

Heimildaþættir breyttu málinu 

Það var ekki fyrr en með heimildarþáttum sænska sjónvarpsins, Experimenten, sem almenningur virtist átta sig á málinu og þeim vafasömu aðferðum sem Macchiarini hafði beitt. Þættirnir voru sýndir hér á RUV á dögunum en í þeim sést meðal annars þegar Macchiarini sannfærir heilbrigða konu í Rússlandi um að gangast undir plastbarkaaðgerð. Konan er nú látin.

Í kjölfar sýningarinnar má segja að málið hafi tekið nýja stefnu. Unnar voru skýrslur um þátt bæði Karolinsku stofnunarinnar og sjúkrahússins sem komu út í lok ágúst. Í báðum eru aðgerðirnar harðlega gagnrýndar, dregið er í efa að ráða hefði átt Macchiarini til Stokkhólms, sagt er að vísindalegan grunn hafi skort fyrir aðgerðunum og að þær hefðu átt að fara fyrir siðanefnd áður en þær voru gerðar.

Enn er til skoðunar af sænskum yfirvöldum hvort Macchiarini verði ákærður fyrir manndráp og eins og áður sagði er enn verið að skoða Lancet-greinina og þátt íslenskra lækna og stofnana í málinu.

Nú er rúmlega fimm og hálft ár liðið frá fyrstu plastbarkaaðgerðinni. Andemariam lést árið 2014. Enn er deilt um hvort hann hafi í raun og veru verið í lífshættu þegar aðgerðin var framkvæmd eins og haldið hefur verið fram. Í skýrslu Asplunds segir að enginn sjúklinganna þriggja sem gengust undir aðgerð á Karolinska hafi verið í bráðri lífshættu og ekki sé hægt að fullyrða að þessi aðgerð hafi lengt líf þeirra eða bætt lífsgæði umfram önnur möguleg inngrip. Tveir sérfræðingar sem fengnir voru til að meta ástand hans fyrir aðgerð segja báðir að nær ómögulegt sé að segja hversu lengi hann hefði lifað, þótt segja megi með nokkurri vissu að hann hefði látist innan nokkurra ára. 

Plastbarkamálið hefur verið kallað eitt stærsta hneyksli sænskra læknavísinda, að minnsta kosti á síðari árum. Ljóst er að Macchiarini beitti blekkingum til að fá fólk til fylgis við sig en hins vegar virðist sem margir hafi hrifist með og ekki þorað að gagnrýna hann eða aðgerðirnar opinberlega. Í skýrslu Asplunds er talað um þöggunarmenningu á sjúkrahúsinu.

„Bandwagon“ er það kallað þegar menn stökkva á vinsældavagn í einhverju máli. Vagninn hans Macchiarinis gekk mjög vel, rúllaði hratt. Hann fékk stóra rannsóknarstyrki frá Evrópusambandinu, frá Vísindaráði, frá Hjarta-og lungnarannsóknasjóðnum og Stokkhólmslén lagði verulegar fjárhæðir til rannsóknarteymis Macchiarinis. Það var freistandi að stökkva á vagninn, en að sama skapi erfitt að stíga af honum aftur þegar hann var kominn á fulla ferð.“

Blekkingameistari?

Sambandi Macchiarinis og Karolinska háskólans lauk formlega í mars í fyrra, um mánuði eftir sýningu sænsku þáttanna. Ekki er að fullu ljóst hvar hann heldur sig en hann hefur starfað víða um heim á síðustu árum. Í grein í tímaritinu Vanity fair er farið yfir feril hans en þar er dregið í efa að rannsóknar- og starfsferill sé í raun jafn glæsilegur og hann haldi sjálfur fram. Þar er því einnig lýst hvernig hann plataði fólk í kringum sig upp úr skónum, en greinin fjallar um konu sem hann var trúlofaður. Macchiarini hélt því fram að hann væri í trúnaðarsambandi við páfann, sem myndi gefa þau saman, viðstaddir brúðkaupið yrðu helstu ráðamenn heims, s.s. Obama-hjónin osvfrv. Eins og gefur að skilja varð ekkert af brúðkaupinu, enda allt uppspuni og Macchiarini giftur annarri konu.

Niðurstöður í vor

Þriggja manna nefndin sem er að störfum hérlendis á að skoða íslenska hluta málsins. Til dæmis hvernig stóð á því að Andemariam var sendur út í aðgerðina, hver hafi borið ábyrgð á því og svo hvernig ástand hans var að lokinni aðgerð. Ekki er ljóst hvenær skýrslunni verður skilað en eftir því sem næst verður komist er stefnt að því að hún verði tilbúin í vor þótt það gæti dregist.