Plastbarkalæknir rannsakaður í fjórum löndum

05.03.2016 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Störf ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarinis eru til rannsóknar í Svíþjóð, Rússlandi, Bandaríkjunum og Ítalíu. Hann græddi plastbarka í menn án þess að prófa aðferðina fyrst á dýrum eða hafa til þess öll tilskilin leyfi. Málið teygir anga sína til Íslands, en íslenskur læknir tók þátt í fyrstu slíku aðgerðinni, og tók ásamt öðrum íslenskum lækni þátt í að skrifa fyrstu vísindagreinina um aðferðina. Síðar hefur komið í ljós að fullyrðingar í greininni eiga ekki við rök að styðjast.

Ekkert bendir til að plastbarkaígræðslan geti virkað. Sex af átta plastbarkaþegunum eru látnir. Einn bíður þess að fá nýjan gjafabarka og hefur gengist undir 8.000 aðgerðir frá því að hann fékk fyrst ígræddan plastbarka. Hér fyrir neðan er saga málsins rakin.

2009-2010  Macchiarini starfar á háskólasjúkrahúsinu í Flórens og græðir gjafabarka úr mönnum og dýrum, þakta stofnfrumum, í menn. Hann gerir fimm slíkar ígræðslur.

2010  Macchiarini ráðinn sem prófessor hjá Karólínska háskólanum og skurðlæknir á Karólínska sjúkrahúsinu. Samtímis starfar hann hjá háskólasjúkrahúsinu í Flórens og í Rússlandi.

2011  Andemariam Beyene, sem var búsettur á Íslandi, er vísað til Karólínska til meðferðar vegna þess að ekki býðst meðferð hérlendis. Tómas Guðbjartsson læknir hefur milligöngu um að Andemariam komist að hjá Karólínska. 
Andemariam var með illkynja æxli í barka, sem hvorki var hægt að fjarlægja hér né í Bandaríkjunum. Því var leitað til Karólínska eftir meðferð. Óljóst er hversu langt Andemariam átti eftir ólifað en ljóst að hann var haldinn banvænum sjúkdómi og að æxlið þrengdi að öndunarvegi hans. 

2011 - 9. júní  Andemariam gengst undir plastbarkaígræðslu á Karólínska sjúkrahúsinu. Tómas Guðbjartsson tekur þátt í aðgerðinni. Ætlunin er að plastbarkinn umbreytist og myndi nýtt líffæri fyrir tilstuðlan stofnfruma úr líkama Andemariams.  Andemariam er eftir þetta ekki í umsjón Hlyns Grímssonar sem var krabbameinslæknir hans. Macchiarini sagði Andemariam að aðferðin hefði verið prófuð á svínum en síðar hefur komið í ljós að engar dýratilraunir höfðu verið gerðar áður en Andemariam lagðist undir hnífinn.

Macchiarini skoðar Andemariam Beyene eftir aðgerð

 

2011 - 16. ágúst  Sýnataka á Landspítalanum. Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson taka sýni úr hálsi Andemariams. Sýnatakan er tekin upp fyrir heimildarmynd Elínar Hirst, Stofnfruman og leyndardómar hennar.

2011 - 24. nóvember  Vísindagrein um fyrstu plastbarkaígræðsluna birtist í Læknatímaritinu Lancet. Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson eru skráðir meðhöfundar, ásamt 26 öðrum læknum. 
Í greininni segir m.a. að tveimur mánuðum eftir aðgerðina (16. ágúst 2011) sé engin sýking í barkanum. Þetta er ekki í samræmi við læknaskýrsluna sem fylgdi sýnatökunni. Þar segir að bæði sveppa- og bakteríusýking sé í barkanum. Íslensku læknarnir skrá einnig að í öndundarveginum sé gat inn í líkamann, s.k. fistula. Þetta kemur ekki fram í greininni í Lancet. 

2011  Macchiarini hitti rapparann D.O.C. sem íhugaði að fara í plastbarkaígræðslu hjá Macchiarini, en rapparinn missti röddina í bílslysi skömmu eftir að fyrsta plata hans kom út.

2011-2013  Macchiarini gerir tvær aðrar plastbarkaaðgerðir á Karólínska og fimm annars staðar í heiminum, m.a. Rússlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

2012  Macchiarini handtekinn í Flórens vegna gruns um að hann hafi tekið sjúklinga fram fyrir biðlista gegn greiðslu. Rannsókn málsins var aldrei lokið.

2012 - febrúar  Átta mánuðum eftir ígræðsluna hefur vírneti verið komið fyrir í hálsi Andemariams til að halda plastbarkanum opnum. Engin æðamyndun né lífvænlegur vefur hefur myndast í barkanum. 

2012  Um vorið deyr sjúklingurinn sem var annar í röðinni til að fá plastbarka. Í ágúst sama ár leggst þriðji sjúklingurinn undir hnífinn.

2012  Ári eftir aðgerðina á Beyene er henni líst sem vel heppnaðri hjá Háskóla Íslands og í viðtölum lækna við fjölmiðlaTómas Guðbjartsson segir bata Andemariam hafa verið vonum framar. Andemariam segir í viðtali við Kastljós að hann hafi í fyrstu verið efins um aðgerðina. Hann hafi átt tvö til þrjú ár eftir ólifað án aðgerðar.

 

Í skýrslum Macchiarinis á þessum tíma segir að öndunarvegur Andemariams sé næstum eðlilegur. Myndband frá Karólínska sjúkrahúsinu sýnir allt annað

 

 

Andemariam Beyene ári eftir aðgerð

2013  Andemariam er sendur til Svíþjóðar vegna vaxandi vandkvæða eftir ígræðsluna. Ekki er greint frá þessu opinberlega.

2013  Fimm af átta sjúklingum Macchiarinis eru látnir. Birgir Jakobsson landlæknir, sem var þá forstjóri á Karólínska sjúkrahúsinu, neitar að framlengja samningi spítalans við Macchiarini. Hann fær þó áframhaldandi ráðningu í Karólínska háskólanum.

2014 - janúar  Andemariam Beyene deyr. Greint er frá andláti hans í íslenskum fjölmiðlum mánuði síðar.  Krufningin leiðir í ljós að plastbarkinn var aldrei lífvænlegur, hann var 90% laus og öndunarvegurinn mjög sýktur. Andemariam var laus við krabbamein, en plastbarkinn dró hann til dauða.

2014 - ágúst  Fjórir læknar á Karólínska sjúkrahúsinu, sem sinntu sjúklingum Macchiarinis eftir aðgerð, kæra Macchiarini til rektors háskólans fyrir að fegra niðurstöður plastígræðslanna í skýrslum og vísindagreinum. Belgískur vísindamaður kærir Macchiarini fyrir að fara rangt með í greininni í Lancet.
    
2014 - nóvember  New York Times birtir grein um kærurnar gegn Macchiarini. Rektor Karólínska ræður óháðan rannsakanda, Bengt Gerdin, og leitar einnig álits frá siðfræðiráði háskólans.

2015 - maí  Greint er frá því í sænska fréttaskýringarþættinum Uppdrag granskning að Macchiriani sé grunaður um vísindafúsk. Málið var kært til lögreglu, en lögreglurannsókn er enn í gangi.  Fjallað er um málið á RÚV. Birgir Jakobsson hafði þá nýverið tekið við starfi landlæknis á Íslandi, en hann var áður forstjóri Karólínska sjúkrahússins. Hann greinir frá því að hann hafi neitað að framlengja samningi Macchiarinis við spítalann. Íslenskir læknar senda frá sér fréttatilkynningu vegna málsins og segja aðgerðina hafa verið gerða í góðri trú.

Bengt Gerdin kemst að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hafi gerst sekur um misferli og að skýrslur hans um plastbarkaígræðslurnar séu ekki réttar. Eftirlitsstofnunar heilsu- og félagsmála í Svíþjóðar segir barkaðgerðirnar hafa verið ólöglegar og hefði átt að flokka sem tilraunir.

2015 - ágúst  Anders Hamsten, rektor Karólínska, tilkynnir að stjórn háskólans hafi komist að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hafi ekki gerst sekur um misferli. Siðfræðiráð Karólínska háskólans hafði áður komist að sömu niðurstöðu. Tómas Guðbjartsson segir þungu fargi af sér létt.

Formaður siðanefndar hjá sænska vísindaráðinu segir að skýrsla Karólínska sjúkrahússins sé skandall.

2016 - janúar  Tímaritið Vanity Fair segir frá því að Macchiarini hafi falsað ferilskrá sína áður en hann var ráðinn til háskólasjúkrahússins í Flórens og til Karólínska. Sagt er frá því hvernig Macchiarini plataði bandaríska sjónvarpskonu upp úr skónum. Hann lofaði að giftast henni og sagði að páfinn myndi gefa þau saman. Meðal gesta í brúðkaupinu áttu að vera Obama forsetahjónin og Pútín Rússlandsforseti. Síðan kom í ljós að Macchiarini var þegar giftur.

 

 

The whirlwind romance of an NBC News producer and a celebrity doctor that was too good to be true. http://vntyfr.com/YROMjex

Posted by Vanity Fair on Saturday, January 9, 2016

 

2016 - 13. janúar  Fyrsti þátturinn af þremur í sænska ríkissjónvarpinu um Macchiarini og plastbarkaaðgerðir hans. Í þáttunum, Dokument inifrån kemur m.a. fram að plastbarkaígræðslurnar höfðu ekki verið prufaðar á dýrum áður en plastbarkar voru græddir í menn og að Macchiarini gerði aðgerðir á fólki í Rússlandi sem ekki var dauðvona og þurfti ekki svo stóra aðgerð. Rangt hafi verið greint frá líðan fyrsta sjúklingsins, Andemariam Beyene, eftir ígræðsluna og þá er því velt upp hvort Andemariam hafi verið eins lífshættulega veikur og Macchiarini sagði. Macchiarini heldur því fram að Andemariam hafi einungis átt nokkra mánuði eftir ólifaða, ólíkt því sem hann sagði sjálfur í samtali við Kastljós ári eftir aðgerðina. Karólínska segir að aðgerðin hafi verið lífsnauðsynleg, vegna þess hversu hætt kominn Andemariam var.

Fjallað er um málið á RÚV. Birgir Jakobsson landlæknir segir að Karólínski háskólinn hafi ekki farið að reglum við plastbarkaígræðslurnar. Hann segist ekki hafa vitað að ígræðslurnar höfðu ekki verið prófaðar á dýrum áður en þær voru framkvæmdar á mönnum. Hvorki fæst viðtal við Tómas Guðbjartsson né Óskar Einarsson vegna málsins.

Heimildaþættir sænska sjónvarpsins verða til þess að þess er krafist að aðgerðirnar og þáttur Karólínska háskólans og sjúkrahússins verði rannsakaður að nýju. 

Helene Hellmark Knutsson, ráðherra háskólamenntunar og vísindarannsókna í Svíþjóð, fer fram á opinbera rannsókn á barkaígræðslum ítalska skurðlæknisins. Hún segir trúverðugleika sænskra vísindarannsókna og Karolinska sjúkrahússins í húfi, hvoru tveggja sé stefnt í voða með þessu hneykslismáli.

Krafan um afsögn stjórnenda Karólínska verður æ háværari. Karólinski háskólinn og sjúkrahúsið boða óháða rannsókn á störfum stofnananna. 

2016 - 13. febrúar  Rektor Karólínska háskólans, Anders Hamsten, segir af sér. Hamsten segir nýjar upplýsingar, m.a. frá Íslandi, varpa nýju ljósi á málið. Síðar kemur í ljós að þær upplýsingar eru myndefni úr heimildarmynd Elínar Hirst, af sýnatöku úr hálsi Andemariams tveimur mánuðum eftir aðgerð.

Bengt Gerdin, rannsakandinn sem komst að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hefði gerst sekur um vísindalegt misferli, segir engar nýjar upplýsingar hafa komið fram í málinu, líkt og stjórnendur Karólínska háskólans halda fram.

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spyr heilbrigðisráðherra á Alþingi hvort ástæða sé til að rannsaka þátt Landspítalans í meðferð fyrsta plastbarkaþegans.

2016 febrúar  Lögregluyfirvöld í Flórens á Ítalíu opna að nýju sakamálarannsókn á hendur Macchiarini. Ítölsk stjórnvöld fara fram á að fyrri barkaígræðslur Macchiarinis, þar sem hann þótti brjóta blað með því að græða mannsbarka baðaðan stofnfrumum í sjúklinga, verði rannsakaðar og kannað hvort fullnægjandi prófanir hafi legið fyrir. Bandaríkjamenn ætla að taka plastbarkaaðgerð Macchiarinis á tveggja ára stúlku í Illinois árið 2013 til gagngerrar skoðunar. Stúlkan lést skömmu eftir aðgerðina.

Rússar hefja rannsókn á störfum Macchiarinis á héraðssjúkrahúsinu í Krasnodar í Rússlandi á árunum 2012 til 2014. Hann græddi plastbarka í fjóra sjúklinga, þrír þeirra létust, sá fjórði lifði af eftir að plastbarkinn var fjarlægður úr honum.

2016 - 22. febrúar  Karólínska tilkynnir að Macchiarini verði sagt upp innan tveggja vikna.

2016 - 3. mars  Ríkistjórn Svía staðhæfir að hluta stjórnar Karólínska verði skipt út.