Persónuleg plata með átjándu aldar ómstríðum

Kastljós
 · 
Kastljós
 · 
menningin
 · 
Menningin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Persónuleg plata með átjándu aldar ómstríðum

Kastljós
 · 
Kastljós
 · 
menningin
 · 
Menningin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
02.06.2017 - 17:06.Halla Oddný Magnúsdóttir.Menningin, .Kastljós
Óvenjulega ómstríður strengjakvartett eftir Mozart, ensk tregaljóð frá endurreisnartímanum og ferðir íslenskra vesturfara til Kanada er meðal þess sem býr að baki nýrri hljómplötu Valgeirs Sigurðssonar, Dissonance, sem kom út undir merkjum útgáfunnar Bedroom Community fyrir skemmstu. Útgáfan, sem Valgeir lýsir sem samfélagi ólíkra en samhentra listamanna, fagnaði 10 ára afmæli fyrr í vetur, og er Dissonance 28. hljómplatan sem hún gefur út.

Þar sem raftónlistin mætir sinfónísku hefðinni

„Platan sem ég var að gefa út heitir Dissonance. Hún er úrvinnsla á þremur verkum sem hafa orðið til síðustu 4-5 ár. Þar blanda ég mikið saman raftónlist og sinfónískri tónlist, þannig að úr verður vonandi eitthvað nýtt,“ segir Valgeir Sigurðsson, tónskáld og upptökustjóri, sem á að baki fjölbreyttan feril. Auk eigin tónsmíða hefur hann átt virkan þátt í tónsköpun listamanna á borð við Björk, Sigurrós og Brian Eno, auk þess að stjórna upptökum tónlistamanna úr ýmsum áttum í stúdíói sínu, Gróðurhúsinu í Breiðholti. Þessi fjölbreyttu áhrif eru greinileg á plötunni Dissonance, þar sem vinnubrögð raftónlistarinnar mæta klassísku tónlistarhefðinni.

Mozart, Dowland og vesturfararnir

Efniviðurinn í titilverki nýju plötunnar er sóttur í strengjakvartett eftir Wolfgang Amadeus Mozart, sem er einstakur í tónlistarsögunni fyrir sérlega ómstríðan upphafskafla, en samtímamönnum Mozarts þótti hann skera mjög í eyru. Hin verkin tvö á plötunni kallast líka á við fortíðina, þótt tónlistin eigi uppruna sinn í hljóðheimi nútímans. Verkið 1875 samdi Valgeir fyrir sinfóníuhljómsveitina í Winnipeg vegna 125 ára afmælishátíðar landnemabyggðar íslendinga þar og verkið No Nights Dark Enough samdi hann eftir pöntun Spitalfieldshátíðarinnar í Lundúnum til að minnast enska endurreisnartónskáldsins Johns Dowlands, en það byggir á tregafullum textanum við frægan lútusöng hans, Flow my tears.
 
„Þessi plata er mjög persónuleg þó að hún eigi allar þessar vísanir í gamla dauða karla,“ segir Valgeir. „Hún er kannski á yfirborðinu svolítið dökk og myrk og titlarnir gefa það til kynna - en það er mikil bjartsýni og von og mikið ljós í henni líka. Og mér finnst þessi plata stefna inn í ljósið, en það er breiður kontrast í henni,“ segir Valgeir.