Páll Einarsson fær Norrænu jarðfræðiverðlaunin

14.01.2018 - 11:23
Mynd með færslu
Páll Einarsson jarðfræðingur hlaut norrænu jarðfræðiverðlaunin 2018 á vetrarmóti norrænna jarðfræðinga, sem haldinn var í Kaupmannahöfn á fimmtudaginn. Páll er prófessor emeritus við Háskóla Íslands. Hann hlaut verðlaunin fyrir framúrskarandi árangur í vísindum og miðlun þekkingar til stjórnvalda og almennings.

„Við settum á stofn þessi verðlaun einmitt til að heiðra fólk sem hefur ekki bara verið framúrskarandi í vísindum heldur líka til að miðla þessari þekkingu til almennings," segir Þorsteinn Sæmundsson, formaður Jarðfræðifélags Íslands, sem átti sæti í dómnefndinni. „Það er hvatinn, því oft vantar tengingu milli vísinda og almennings."

Þorsteinn segir að á Íslandi sé sérstaklega brýn þörf á að jarðvísindamenn séu meðvitaðir um að miðla þekkingu sinni til almennings. Páll hafi ávallt verið meðvitaður um að traust þurfi að ríkja milli jarðvísindamanna og almennings.

„Hann hefur fjallað um jarðskjálfta, eldgos og eldfjöll, og verið ötull við að koma og segja fólki frá þessu á skiljanlegan máta."

Verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti í Reykjavík árið 2012, og þá skapaðist sú hefð að verðlaunahafinn fengi verðlaunagrip úr steini frá því landi þar sem fundurinn væri haldinn. Fyrsti verðlaunagripurinn var því brot af íslensku stuðlabergi. Páll hafði með sér frá Danmörku níu kílóa hnullung, 55 milljón ára gamlan stein með öskulögum frá því að Atlantshafið opnaðist og Ísland tók að myndast. 

Páll Einarsson tekur við norrænu jarðfræðiverðlaununum í Kaupmannahöfn 11. janúar 2018
Páll tekur við verðlaunagripnum, 55 milljón ára gömlum steini.  Mynd: Dansk Geologisk Forening  -  Facebook
Mynd með færslu
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV