Óþarfa áhyggjur af áhyggjusemi

Innlent
 · 
Íslenskt mál
 · 
Orð af orði
Örmagna maður.
 Mynd: Pixabay

Óþarfa áhyggjur af áhyggjusemi

Innlent
 · 
Íslenskt mál
 · 
Orð af orði
Mynd með færslu
08.08.2017 - 16:24.Anna Sigríður Þráinsdóttir.Orð af orði
Orðið áhyggjusamur hefur valdið töluverðu fjaðrafoki í dag. Fjölmargir höfðu samband við fréttastofu RÚV til að benda á villu í fyrirsögn þar sem orðið kom fyrir og óska eftir að hún yrði leiðrétt. Auk þess spruttu umræður um orðið á Facebook og þótti sumum sem þar væri fulllangt gengið í nýyrðasmíðinni. Sannleikurinn er þó sá að orðið er hvorki villa né nýyrði heldur er það eldgamalt og er meðal annars notað í Þorgils sögu skarða, Ljósvetninga sögu og Vídalínspostillu.

Orðið áhyggjusamur er að minnsta kosti 600-800 ára gamalt og mögulega eldra. Það hefur aldrei verið mjög algengt í ritmáli en þó notað í ýmsum blöðum og tímaritum fram á þennan dag. Það sést líka í þjóðsögum og á gömlum bréfum og bókum. Einnig þekkist lýsingarorðið áhyggjusamlegur og atviksorðið áhyggjusamlega og þau heyrast stundum í fréttum RÚV. Áhyggjusamur er samheiti orðsins áhyggjufullur en það er líka oft notað þar sem ekki gengur að nota orðið áhyggjufullur til dæmis um störf eða tíma eins og í stjörnuspá í Tímanum 14. júní 1974: „Þetta er áhyggjusamur dagur hjá þér, því að þú hefur áhyggjur af einhverjum, sem er þér nákominn, að líkindum vegna heilsufars viðkomandi. Þú gerir bezt í því að heimsækja viðkomandi, ef þú getur komið því við.“ 

Áhyggjusamur hefur fallegan hljóm. Það er af sömu rót og orðið umhyggjusamur og þeim sem er áhyggjusamur er svo annt um eitthvað að hann hefur af því áhyggjur, hann lætur sér ekki standa á sama.

Áhyggjusamur og áhyggjufullur eru ekki fullkomin samheiti, enda eru samheiti það sjaldnast. Á þeim er blæbrigðamunur og það er gott að geta valið blæbrigði eftir tilefni.

 

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Vísindamenn áhyggjusamir í Bandaríkjunum