Opna á samskiptalínur Kóreuríkja

03.01.2018 - 06:12
epa06358487 A photo released by the North Korean Central News Agency (KCNA), the state news agency of North Korea, on 30 November 2017 shows North Korean leader Kim Jong-un (C) giving an order to test-fire the newly developed inter-continental ballistic
 Mynd: epa
Norður-kóresk stjórnvöld greindu frá því í nótt að þau ætli að opna á samskiptalínuna við suður-kóresk stjórnvöld nú í morgunsárið, klukkan hálf sjö að íslenskum tíma. Virðast þau þar með þekkjast boð stjórnvalda í Suður-Kóreu um viðræður eftir áramótaræðu Kim Jong-Un.

Kim kom víða við í áramótaræðu sinni og sagðist meðal annars hafa takka á borði sínu sem setur af stað kjarnorkusprengju. Síðar kvað við mildari tón í ræðu hans þar sem hans sagðist fús til að setjast að samningaborðinu með stjórnvöldum í Suður-Kóreu til að bæta samskiptin þar á milli. Þá bætti hann því við að hann vildi sjá norður-kóreska íþróttamenn á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang, sunnan landamæranna, í næsta mánuði. 

Stjórnvöld í Seúl kváðust fús til viðræðna sem allra fyrst. AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni sameiningarráðuneytis Suður-Kóreu að Norður-Kórea hafi þekkst boðið. Því var lýst yfir í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu að samskiptarás verði opnuð við suður-kóresk stjórnvöld í dag. Þá segir Yonhap fréttastofan frá því að Kim taki friðarviðræðum opnum örmum.

Meðal Bandaríkjamanna ríkir lítil bjartsýni um viðræðurnar. Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði viðræðutilboð Kims aðeins plástur á sárin, og Bandaríkin eigi aldrei eftir að samþykkja nein tilboð af hálfu Norður-Kóreu á meðan ríkið ræður yfir kjarnavopnum.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafði einnig sitt að segja um áramótaræðu Kims. Hann notaði Twitter til að segja umheiminum frá því að hann væri einnig með takka fyrir kjarnorkusprengju á sínu borði, en hans takki væri bæði stærri og öflugri en Kims. Einhver þyrfti að koma þeim skilaboðum til norður-kóreska þjóðhöfðingjans.