Önnur Norðurlönd gera meira til að auka jöfnuð

17.07.2017 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland er í 12. sæti af 152 ríkjum þegar kemur að aðgerðum stjórnvalda gegn ójöfnuði, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Oxfam. Ísland stendur sig þó langverst af Norðurlöndunum.

Skýrslan, sem birt var í dag, leggur mat á aðgerðir stjórnvalda í 152 ríkjum til þess að minnka bilið milli ríkra og fátækra. Þrír málaflokkar eru notaðir sem mælikvarði, sem rannsóknir hafa sýnt að auki jöfnuð. Í fyrsta lagi er tekið tillit til útgjalda til velferðarmála, einkum til menntamála, heilbrigðismála og til félagslegrar aðstoðar. Í öðru lagi er litið á það hvort, og þá hvernig, skattkerfið sé notað til að draga úr ójöfnuði, þ.e. hvernig skattbyrði leggst á fólk og hvort þeir tekjuhærri greiði hlutfallslega hærri skatta en þeir tekjulægri. Þriðja atriðið lýtur að löggjöf á vinnumarkaði, réttindum launafólks og lágmarkslaunum. 

Svíþjóð trónir á toppnum

Megin niðurstöður skýrslunnar eru þær að öll ríki gætu gert mun betur, líka þau sem eru í efri hlutanum. Þannig komast skýrsluhöfundar að því að 112 af 152 ríkjum gætu gert helmingi meira til að berjast gegn ójöfnuði. 

Svíþjóð er í fyrsta sæti á listanum, Belgía í öðru og Danmörk í því þriðja. Þar á eftir koma Noregur, Þýskaland og Finnland. Ísland vermir 12. sætið á listanum og mælist með töluvert lakari frammistöðu en hin Norðurlöndin. Talsverður munur er á frammistöðu Íslands milli flokka. Þannig er Ísland í 7. sæti varðandi vinnumarkaðslöggjöfina en raðast mun aftar þegar kemur að útgjöldum til velferðarmála (24. sæti) og að nýta skattkerfið til að auka jöfnuð (27. sæti). 

Í kringum Ísland á listanum eru Japan og Írland. Bretland er í 17. sæti og Bandaríkin í því 23. Nígería vermir neðsta sæti á listanum yfir aðgerðir stjórnvalda til að berjast gegn ójöfnuði. 

Oxfam eru alþjóðleg samtök sem stofnuð voru árið 1942 og hafa að markmiði að berjast gegn fátækt í heiminum.