Óhreinsað skólp rennur í sjóinn á morgun

17.07.2017 - 13:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neyðarlúgur í skólpdælustöðvum við Faxaskjól og Skeljanes í Reykjavík verða opnaðar á morgun. Óhreinsað skólp fer þá í sjóinn við Ægissíðu og Skerjafjörð.

Neyðarlúgurnar verða opnaðar vegna viðgerðar sem haldið verður áfram á morgun. Hún hefst klukkan átta í fyrramálið og er gert ráð fyrir að stillingar og prófanir standi yfir til miðnættis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Veitur sendu frá sér eftir hádegi í dag. Veitur reka dælustöðina. Fyrirtækið er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Í tilkynningunni er fólki ráðlagt að fara ekki í fjöruna eða sjóinn nálægt dælustöðvunum.

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hefur verið tilkynnt um framkvæmdina. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega sagði í henni að tilkynningin væri frá Orkuveitu Reykjavíkur en ekki frá Veitum, eins og rétt er.