„Óhagstæður og hættulegur okkur Íslendingum“

12.01.2018 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Í dag eru 25 ár liðin síðan Alþingi samþykkti samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Aldrei hafði verið rætt jafn mikið um nokkurt mál og EES-samninginn sem klauf þjóðina í tvennt. Stuðningsfólk samningsins sagði hann opna Íslendingum sóknarfæri í efnahagsmálum og treysta samskiptin við þjóðir Evrópu. Andstæðingar sögðu að sjálfstæðinu yrði fórnað og fiskveiðimið opnuð fyrir rányrkju evrópskra skipaflota auk þess sem þeir vöruðu við stórauknu atvinnuleysi.

Viðræður Evrópubandalagsins, forvera Evrópusambandsins, og Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, um EES-samninginn hófust árið 1989. Flestar meginlandsþjóðir Vestur-Evrópu áttu þá aðild að Evrópubandalaginu en Norðurlönd, að Danmörku undanskilinni, Sviss og Liechtenstein stóðu að EFTA.

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins, Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Borgaraflokksins undir stjórn Steingríms Hermannssonar var við völd þegar viðræður hófust. Þegar kom að kosningum 1991 brast samstaðan þegar Alþýðuflokkurinn, undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra, barðist mjög fyrir EES-samningnum, en Framsóknarflokkur Steingríms og Alþýðubandalagið undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar fjármálaráðherra lýstu efasemdum. Jón Baldvin sagði það helstu ástæðu þess að hann myndaði svo stjórn með Sjálfstæðisflokknum, þar sem Davíð Oddsson var nýorðinn formaður, svo hægt væri að tryggja framgang EES-samningsins.

Mest rædda mál Íslandssögunnar

Atkvæði voru greidd um EES-samninginn 12. janúar 1993. Þingsalur var fullsetinn klukkan þrjú síðdegis þegar atkvæðagreiðslan hófst. Fyrst voru greidd atkvæði um tillögu stjórnarandstöðunnar um að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar. Andstæðingar samningsins sögðu ekki hægt að greiða atkvæði um hann þar sem kjósendur í Sviss hefðu hafnað honum. Þar með þyrfti að semja upp á nýtt. Sú tillaga var felld og tekið til við atkvæðagreiðslu um lagaheimild fyrir samþykkt EES-samningsins. Í eina og hálfa klukkustund tóku þingmenn 49 sinnum til máls til að gera grein fyrir atkvæði sínu. Hér að neðan er brot af því sem fólk sagði í atkvæðagreiðslunni þennan dag fyrir 25 árum.

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði að ekkert mál fyrr og síðar hefði verið meira rætt en EES-samningurinn. „Þrautreynt er að mínu mati að það er ekki grundvöllur fyrir frekari sátt um málið en þegar er orðið,“ því væri ekki ástæða til að tefja málið frekar.

Lára Margrét Ragnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að EES-samningurinn væri liður í óhjákvæmilegri þróun í heiminum þar sem bættir viðskiptahagsmunir væru ein meginundirstaða aukinnar velmegunar. „Honum fylgja tvímælalaust auknir hagsmunir Íslands, hvort heldur litið er til lengri eða skemmri tíma.“ Guðjón Arnar Kristjánsson, samflokksmaður hennar, sagði að EES-samningurinn myndi færa stóriðju Íslendinga, sjávarútveginum, ný sóknarfæri og möguleika á aukinni úrvinnslu sjávarafurða samfara auknum verðmætum fyrir þjóðina.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
EES-samningurinn var samþykktur með 33 atkvæðum gegn 23. Sjö greiddu ekki atkvæði. Alþýðuflokkurinn stóð heill að samþykkt samningsins og Alþýðubandalagið gegn honum. Aðrir flokkar klofnuðu.

Afsölum frumburðarrétti Íslendinga

„Þetta er vondur samningur, óhagstæður og hættulegur okkur Íslendingum,“ sagði Páll Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins. „Við afsölum okkur frumburðarrétti okkar Íslendinga til landsins og auðlinda þess til lands og sjávar. Þessi samningur kemur til með að færa okkur ósjálfstæði, atvinnuleysi, fátækt og auðnuleysi.ׅ“

Ragnar Arnalds, þingmaður Alþýðubandalagsins, var engu ánægðari með samninginn. „Séð út frá hagsmunum Íslendinga er Evrópska efnahagssvæðið tilraun sem mistókst,“ sagði Ragnar. Hann óttaðist, eins og margir aðrir andstæðingar samningsins, að þátttaka Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu væri afdrifaríkt fyrsta skref til fullrar aðildar að Evrópubandalaginu, eins og Evrópusambandið hét þá.

Mikilvægur fyrir konur

Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Alþýðuflokksins, sagði samninginn styrkja atvinnu- og efnahagslíf Íslendinga. „Þess vegna treystir aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu stöðu okkar og sjálfstæði.“ Hún sagði samninginn líka vera mikilvægan fyrir konur því að fjölbreytt atvinnulíf myndi styrkja stöðu þeirra og jafnrétti.

Sigbjörn Gunnarsson, flokksbróðir Rannveigar, sagði samninginn um EES hafa í för með sér aukna verðmætasköpun og bæta enn lífskjör Íslendinga. „Það er mikill ábyrgðarhluti að hafna slíkum tækifærum. Það er gæfa íslenskrar þjóðar hvað erlend samskipti varðar að öfl framfara og sóknar hafa ætíð reynst sterkari öflum afturhalds og vanmetakenndar hér á hinu háa Alþingi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan/Jón Páll Ás
Þingmenn tókust á um hvort EES-samningurinn yrði til að efla íslenskan sjávarútveg eða grafa undan honum.

Til hvers var þá barist?

Sigríður Anna Þórðardóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að í smækkandi heimi greiðra samgangna og viðskipta væri ríkari nauðsyn en nokkru sinni fyrr á gagnkvæmu trausti þjóða á milli. „Einangrunarstefna á þar engan rétt og er aðeins til þess fallin að rýra hag þeirra sem hana kjósa.“

Eggert Haukdal, flokksbróðir Sigríðar Önnu var á öndverðri skoðun. „Það liggur nú fyrir að við höfum látið undan þrýstingi EB sem krefst auðlinda okkar í stað tollfríðinda. Það blasir við að EB fái aðgang að landhelginni. Spyrja má: Til hvers var þá barist fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu ef EB á að móta fiskveiðistefnu Íslendinga hér eftir.“ Eggert benti á að danskur maður færi með æðstu völd í Evrópubandalaginu svo Íslendingar væru óbeint komnir undir dönsk yfirráð á ný.

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að Íslendingar væru fyrstu og fremst veiðimannaþjóðfélag. Hann sagði EES-samninginn hafa gífurlega þýðingu fyrir íslenskan sjávarútveg og væntanlega styrkja hann til muna í samkeppni við sjávarútveg annarra þjóða. „Í öllum samningum eru plúsar og mínusar. Fyrir Íslendinga eru plúsarnir miklu meiri. Við mínusana eigum við að ráða með markvissri stjórnun.“

Mynd með færslu
Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra á árunum 2009-2011  Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Steingrímur J. Sigfússon er eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði um EES-samninginn sem enn á sæti á Alþingi.

Landhelgin opnuð fyrir flota Evrópubandalagsins

Stefán Guðmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að með samþykkt EES-samningsins væri ríkjasamsteypum erlendra þjóða falið forræði í mikilsverðum málum íslensku þjóðarinnar. „Við erum að opna landhelgi Íslands fyrir flota Evrópubandalagsins. Við heimilum erlendum aðilum kaup á íslensku landi. Við greiðum leið erlendra þjóða til að komast yfir orkulindir landsins.“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Alþýðubandalagsins, sagði að EES-samningurinn væri aukaaðild að Evrópusambandinu og yrði ekki farsæll farvegur í góðum samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. „Ég tel það dapurlegt ef það eiga að verða örlög okkar Íslendinga að afsala hluta af okkar fullveldi úr landi áður en lýðveldið fagnar hálfrar aldar afmæli sínu. Ég get ekki og hef aldrei getað skilið þau rök að vænlegasta aðferðin til að varðveita sjálfstæði sitt sé að fórna því.“

Mynd með færslu
 Mynd: Rikisstjorn.is
Viðræður um EES-samninginn hófust í tíð vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar en Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar (að ofan) var komin til valda þegar frá honum var gengið og hann samþykktur.

Öflugra atvinnulíf eða aukið atvinnuleysi

„Þjóð er ekki sjálfstæð nema hún búi við efnahagslegt sjálfstæði,“ sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Alþýðuflokksins, og sagði vegið að því efnahagslega sjálfstæði á tímum samdráttar, aflabrests og atvinnuleysis. Hann sagði að EES-samningurinn myndi treysta undirstöður atvinnulífsins og vinna gegn atvinnuleysi, ekki síst í sjávarbyggðum landsins.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, þingmaður Kvennalista, andmælti Össuri og sagði að EES yrði ekki bjargráð fyrir íslenskt atvinnulíf heldur þvert á móti. Hún sagði að eitt helsta skilyrðið væri að jafna skilyrði atvinnulífs innan svæðisins. „Eitt helsta einkenni þess er sífellt vaxandi atvinnuleysi, atvinnuleysi sem varaformaður Alþjóðavinnumálastofnunarinnar segir að stefni í ástand á borð við plágur og drepsóttir miðalda þegar við lá landauðn á þeim svæðum sem verst urðu úti.“

Sjö sátu hjá

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, var eini þingmaður Kvennalista sem ekki greiddi atkvæði gegn samningnum. Hún sagði að Íslendingar kæmust ekki hjá því að aðlaga sig þeim leikreglum í viðskiptum sem giltu á Evrópska efnahagssvæðinu. Hún sagði að aðlögun í gegnum EES-samninginn væri hagfelldari íslensku samfélagi en einhliða aðlögun. Hún sagðist þó ekki greiða atkvæði með samningnum vegna þess hvernig stjórnin hefði staðið að málinu og hunsað óskir tugþúsunda landsmanna um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ingibjörg Pálmadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sat líka hjá. Hún sagði mikilvægasta ávinning Íslendinga af samningnum vera að bua við sambærilegar tolla- og viðskiptareglur og keppinautar þeirra á stærsta og mikilvægasta útflutningsmarkaði Íslendinga. Hún gæti þó ekki stutt samninginn þar sem sjávarútvegssamningurinn væri ekki ásættanlegur og vafi léki á því hvort samþykkt EES-samningsins stæðist stjórnarskrána.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gömul skýringarmynd um EES-svæðið.

Opnað fyrir veiði rányrkjuþjóða

Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, greiddi atkvæði gegn samningnum og sagði hann dýru verði keyptan. „Við gefum 400 milljónum Evrópubúa jafnan rétt á við okkur sjálf í eigin landi. Auðlindir til lands og sjávar, jafnt numdar sem ónumdar, eru settar á annes óvissunnar hvað eignarrétt og nýtingu varðar. Hver hefði trúað því að ríkisstjórn Íslands skrifaði undir nauðungarsamning gagnvart fiskveiðilögsögunni þar sem Evrópubandalagið fær allt fyrir ekkert? Hver hefði trúað því í lok landhelgisbaráttunnar að örfáum árum síðar ætti það fyrir þessari þjóð að liggja að opna fyrir fiskveiðiheimildir til rányrkjuþjóðanna á ný?“ Hann sagði Breta, Portúgala, Spánverja, Belga og Þjóðverja taka við fiskveiðilykli úr hendi ríkisstjórnarinnar.

„Aðild að Evrópsku efnahagssvæði er ekki annað en biðsalur aðildar að Evrópubandalaginu,“ sagði Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalagsins. Hann sagði efnahagslegan ávinning lítinn, samkvæmt varfærnislegu mati Þjóðhagsstofnunar, en á móti kæmu milljarða króna útgjöld sveitarfélaga, fækkun starfa, aukið atvinnuleysi og stórfelld hætta á hruni margra byggðarlaga á landsbyggðinni, samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar.

epa05744185 European Milk board (EMB) representatives spray milk powder in front of the EU Council headquarters, during an EU Agriculture Ministers Council meeting in Brussels, Belgium, 23 January 2017. The EMB complains that the milk market is stuck in a
 Mynd: EPA
Mótmæli evrópskra mjólkurframleiðenda við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í fyrra.

„Evrópa er engin paradís“

„Mér kemur ekki til hjartans hugar að með því að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu séum við að ganga inn í eitthvert framtíðarsæluríki né heldur á hinn bóginn í allsherjar svartnætti,“ sagði Svanhildur Árnadóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, „Þetta er ekki svart eða hvítt í mínum huga.“ Hún sagðist ekki bera kvíðboga fyrir því að glutra niður menningu eða sjálfstæði Íslendinga með samningnum heldur þvert á móti hefði menning Íslendinga eflst í samskiptum og samvinnu við aðrar þjóðir.

Hjörleifur Guttormsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, las kvæði sem hann hafði fengið sent frá konu í dölum Borgarfjarðar eystra. Það hófst á orðunum:

Vitið þið að vilji er allt sem þarf,
við höfum fengið dáð og þrek í arf.
Flanið ekki út á hálan ís,
Evrópa er engin paradís.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV