Ófært eða þungfært víðast á Vestfjörðum

07.01.2018 - 09:55
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Aðstæður á vegum virðast varhugaverðar víðast hvar um landið, samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar um færð og aðstæður. Víða er hálka, snjóþekja eða éljagangur. Á Vestfjörðum er ófært eða þungfært á flestum leiðum. Þar verður athugað með mokstur um klukkan tólf. Vegurinn um Súðavíkurhlíð er lokaður vegna snjóflóðahættu.

Hálkublettir eru víða á Reykjanesi. á Suðurlandi er hálka eða snjóþekja og flughált er milli Selfoss og Stokkseyrar. Éljagangur er á Mosfellsheiði.

Hálka, snjóþekja og þæfingur einkenna veður og færð á Vesturlandi. All víða er snjókoma og éljagangur. Stórhríð er á útnesvegi.

Sem fyrr segir er ófært eða þungfært á flestum leiðum á Vestfjörðum. Þæfingur og hálka er á Innstrandavegi.

Hálka eða snjóþekja og skafrenningur er á flestum leiðum á Norðurlandi. Þæfingur og éljagangurer á Hólasandi. Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum, á fjallvegum er skafrenningur og éljagangur.

Hálka og snjóþekja er á Suðausturlandi. Þæfingur er á Breiðamerkursandi en þæfingur og stórhríð í Eldhrauni.

Fréttin miðast við aðstæður einsog þær voru samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar þegar klukkuna vantaði stundarfjórðung í tíu. Uppfærðar upplýsingar er að finna á vef Vegagerðarinnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV