Nýjungar hitta ekki endilega í mark

11.01.2018 - 19:33
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson  -  RÚV
Vinsældir súrmatar fara síst dvínandi, segja matvælaframleiðendur sem búa sig undir komu þorra. Íslendingar eru íhaldssamir og nýjungar í matargerð hitta ekki endilega í mark. 

Bóndadagurinn, 19. janúar næstkomandi, markar upphaf þorra. Matvælaframleiðendur hófu undirbúning í haust, með því að sjóða, salta, reykja og setja í súr. Nú er verið að leggja lokahönd á framleiðsluna, sneiða niður og pakka.  

Framleiðslan aukist 

Ætla má að hátt í 100 tonn af súrmat fari á markað og er annað eins framleitt af nýmeti, sviðum, sultu og hangikjöti svo eitthvað sé nefnt. Ólafur M. Þórisson, markaðsstjóri Kjarnafæðis, segir að vinsældirnar hafi heldur aukist og framleiðslan sömuleiðis. „Við bjuggumst hreinlega ekki við því, miðað við að neysla á þessum vörum er að minnka, en þetta hefur frekar verið að aukast síðustu tvö árin,“ segir Ólafur. 

Ýmsar nýjungar í þorramat hafa litið dagsins ljós. Norðlenska hóf framleiðslu á súrsuðum lambatittlingum fyrir nokkrum árum. Eggert H. Sigmundsson, framleiðslustjóri Norðlenska, segir að þótt þeir seljist ekki í bílförmum hafi viðtökurnar verið ágætar. „Ég held nú að fólk sé að taka þetta meira til gamans á þorrablót og þess háttar,“ segir hann. 

Íslendingar íhaldssamir

En nýjungar slá ekki alltaf í gegn. „Við erum búin að reyna nokkrar nýjungar, til að mynda grænmetissultu og kjötsúpusultu, það gekk ekki. Fólk er bara fastheldið á sinn þorramat og það er frábært í rauninni,“ segir Ólafur. Eggert tekur undir þetta. „Ég held að fólk sé býsna íhaldssamt. Við erum íhaldssamir í þessu líka, við höldum í hefðirnar og hefðirnar eru mikilvægar í þessu. Við eigum ekkert að vera feimin við það,“ segir Eggert. 

40 þúsund lítrar af mysu

Þeir segja að sviðasulta og súrir hrútspungar njóti mestra vinsælda. Og til að framleiða tugi tonna af þorramat þarf bæði margar hendur og mikið hráefni. 
„Við erum til dæmis að kaupa hérna inn frá MS einhverja 40 þúsund lítra af mysu sem við leggjum í og notum yfir þetta tímabil, þannig að magnið er mikið í kringum þetta og umstangið gríðarlegt,“ segir Eggert.  

 

Mynd með færslu
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV