Norrænt samstarf mikilvægt fyrir Íslendinga

13.01.2018 - 20:21
Mynd með færslu
Tryggvi Felixson, ráðgjafi hjá Norðurlandaráði  Mynd: RÚV
Samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs skiptir Ísland meira máli en önnur Norðurlönd. Þetta segir ráðgjafi hjá Norðurlandaráði í Kaupmannahöfn. Þá megi halda því fram að hver króna sem Ísland setji í samstarfið skili sér til baka.

Norðurlandaráð er þingmannavettvangur í opinberu norrænu samstarfi og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs. Það var stofnað árið 1952 og er skipað 87 þingmönnum frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

En hvað er svona mikilvægt fyrir Ísland sérstaklega? 

„Það skiptir miklu máli og það skiptir Ísland kannski meira máli en hin Norðurlöndin vegna þess að Ísland nýtur mjög góðs af Norðurlandasamstarfinu, maður getur meira að segja sagt, skiptir Norræna húsið í Reykjavík okkur máli? Hvað ef það hverfur? Hvað er mikilvægast fyrir Ísland í þessu Norðurlandasamstarfi innan Norðurlandaráðs? Það er aðgangur að þekkingu og reynslu,“ segir Tryggvi Felixseon, ráðgjafi hjá Norðurlandaráði.

Tengslin skipti líka miklu máli, aðgangur að menntakerfi, mörkuðum, stjórnmálum og sameiginlegur norrænn genabanki geri Norðurlöndin sterkari saman. „Það má meira að segja færa rök fyrir því að það skili sér hver króna sem við setjum í Norðurlandasamstarfið, skili sér aftur, ég tala nú ekki um Ísland, sem fær raunverulega með beinum hætti meira en það leggur til.“

 

Inn á milli heyrast gagnrýnisraddir sem segja ráðið og ákvarðanir þess ósýnilegar. Bertil Haarder, fyrrverandi ráðherra í Danmörku og þingmaður með áratuga reynslu af samstarfi Norðurlanda innan Norðulandsráðs er því ósammála.

 

„Fyrir mér hefur það verið norrænt samskiptanet sem hefur gagnast mér fádæma vel á löngum stjórnmálaferli. Norðurlöndin eru svo í krafti þessarar samvinnu fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir í heiminum. Hingað koma erindrekar sem vija fræðast um það hvernig við förum að því þeir senda skýrslu heim um norræna samstarfið,“ segir Haarder.

 

 

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Dagný Hulda Erlendsdóttir