Norðmenn sýna frásögn Hólmfríðar áhuga

12.01.2018 - 07:32
Mynd með færslu
 Mynd:  -  RÚV
Norska ríkisútvarpið, NRK, er meðal þeirra miðla í Noregi sem fjallað hafa um frásögn Hólmfríðar Magnúsdóttur, einnar farsælustu knattspyrnukonu Íslands, en hún var ein af 62 frásögnum sem birtust í tengslum við yfirlýsingu íþróttakvenna í gær. Hólmfríður greindi frá því hvernig hún hefði verið stanslaust áreitt af þjálfara sínum þegar hún var á mála hjá Avaldsnes. Yfirmaður kvennaliðsins segist hafa viljað að þjálfarinn yrði rekinn eftir að Hólmfríður upplýsti stjórn félagsins um hegðun hans.

Saga Hólmfríðar birtist fyrst nafnlaus í frásögnum íþróttakvenna en mbl.is fékk síðar leyfi hennar til að birta nafnið. Hólmfríður lýsti því hvernig þjálfari hennar hjá Avaldsnes hefði áreitt hana stanslaust og hversu mikil áhrif þessi áreitni hefði haft á hana.  

Púls hennar hefði til að mynda rokið upp þegar hún heyrði rödd hans á myndbandsklippu í tengslum við Evrópumótið í knattspyrnu síðasta sumar en þjálfarinn fyrrverandi lýsti leikjum á mótinu fyrir NRK. 

Vefur NRK fjallaði um sögu Hólmfríðar seint í gærkvöld en íslenska landsliðskonan segist í samtali við NRK ekki vilja tjá sig frekar um málið.

Helge Graad, formaður Avaldsnes, staðfestir í samtali við norska ríkisútvarpið að hann þekki til sögu Hólmfríðar. Hann segir að þegar málið hafi komið upp hafi félagið reynt að vinna úr því fagmannlega og að niðurstaðan hafi verið að sú að þjálfarinn hafi verið látinn fara.

Arne Utvik, formaður kvennadeildar Avaldsnes, segir sömuleiðis að hann þekki til sögu Hólmfríðar. Hann segist hafa viljað að þjálfarinn yrði rekinn vegna framkomu sinnar og áreitis í garð Hólmfríðar og upplýsir jafnframt að hann hafi séð hluta af þeim skilaboðum sem þjálfarinn sendi Hólmfríði á sínum tíma. Hólmfríður greindi frá því að umræddur þjálfari hefði einnig sent henni óviðeigandi myndir og myndbönd.

NRK segist í frétt sinni hafa verið í samskiptum við aðra leikmenn Avaldsnes en enginn þeirra hafi viljað tjá sig um málið. Þá reyndi NRK ítrekað að ná tali af þjálfaranum en án árangurs. Lögmaður hans sendi frá sér stutta yfirlýsingu þar sem hann kvaðst ekki ætla að tjá sig um það sem hann segir vera orðróm og vangaveltur.