Níu koptar myrtir í Egyptalandi

30.12.2017 - 06:36
epa06409657 People mourn around a casket of a female victim during the funeral for victims of an attack, at a church in the working-class suburb of Helwan, Cairo, Egypt, 29 December 2017. According to a press release by Egypt's Foreign Press Office,
Frá útför eins fórnarlamba morðingjans í Helwan-héraði  Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Minnst níu manns dóu í tveimur skotárásum í Helwan-héraði, suður af Kaíró í Egyptalandi á föstudag. Svo virðist sem sami maðurinn hafi verið að verki í báðum árásum, og í báðum tilfellum réðist hann á kristna kopta. Frá þessu er greint í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti Egyptalands. Þar segir að maðurinn hafi skotið sex óbreytta borgara og einn lögreglumann til bana þegar hann reyndi að ráðast inn í koptíska kirkju.

Hann hafi hins vegar verið stöðvaður og handtekinn áður en honum tókst það ætlunarverk sitt, segir í tilkynningunni. Skömmu áður mun hann hafa ráðist inn í verslun í eigu kopta í sama hverfi og myrt þar tvo bræður. Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa þegar lýst ódæðinu á hendur sér.

Atburðarásin sem lýst er í tilkynningu ráðuneytisins er nokkuð frábrugðin fyrstu fréttum af ódæðisverkunum, en í þeim var sagt að allt að 12 hefur fallið, árásarmennirnir verið minnst tveir og að annar þeirra hafi fallið en hinn náð að flýja en verið gripinn nokkru síðar. Um 100 kristnir Egyptar hafa verið myrtir á árinu og hefur Íslamska ríkið oftar en ekki lýst illvirkjunum á hendur sér.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV