Níu dóu í fangauppreisn og eldsvoða í Brasilíu

epa06413124 A handout photo made available by O Popular shows a group of inmates guarded by the authorities at a prison in the metropolitan region of Goiania, capital of the Brazilian state of Goias, Brazil, 01 January 2018. At least 9 people died and
 Mynd: EPA-EFE  -  O Popular EFE
Minnst níu létust og fjórtán særðust í fangauppreisn í öryggisfangelsi í Goias-ríki í Brasilíu í dag, nýársdag. Uppreisnin endaði í miklum eldsvoða í fangelsinu og yfir 100 fangar náðu að flýja í uppnáminu sem honum fylgdi. Fangelsisyfirvöld upplýsa að hópur fanga sem allir tilheyra sama glæpagenginu hafi ráðist inn í aðra álmu fangelsisins, þar sem fangarnir eru allir úr öðru glæpagengi. Út brutust blóðug átök sem að lokum leiddu til íkveikju og eldsvoða.

Slökkvilið náði að ráða niðurlögum eldsins áður en langt um leið og samkvæmt brasilískum fjölmiðlum hefur þungvopnað lið herlögreglu brotið uppreisnina á bak aftur og náð 29 af þeim 106 föngum sem flýðu. Í Amasón-ríki, norðar í landinu, tókst 10 föngum að strjúka úr fangelsi á nýársdag, samkvæmt AFP-fréttastofunni.

Um eða yfir 700.000 manns sitja inni í brasilískum fangelsum, sem ætluð eru fyrir um helming þess fjölda. Aðeins í Bandaríkjunum (2.15 milljónir) og Kína (1,65 milljónir) eru fleiri á bak við lás og slá, en í Rússlandi eru fangar litlu færri en í Brasilíu. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV