Nemendum gert að nefna kosti þrælahalds

14.01.2018 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Skólastjóri í Wisconsin í Bandaríkjunum hefur beðið nemendur og foreldra þeirra afsökunar á heimaverkefni sem börn í fjórða bekk voru látin vinna.

Nefndu þrjá ókosti og þrjá kosti við þrælahald.

Svona hljóðaði heimaverkefni níu ára barna í einkaskóla einum í Wisconsin í Bandaríkjunum. Og ekki á tímum þrælastríðsins heldur í síðastliðinni viku.
Það var móðir eins nemandans sem vakti athygli á heimaverkefninu á Facebooksíðu sinni og sagði að verkefnið hefði fyrst vakið athygli hennar þegar sonur hennar sat sveittur yfir námsbókunum og átti að eigin sögn í mesta basli með að finna eitthvað jákvætt um þrælahald að segja.

Móðirin sagði að verkefninu mætti líkja við það að nemendur væru beðnir um að nefna þrjá kosti við nauðgun eða þrjá kosti við helförina. Þó það væri sannarlega nauðsynlegt að nemendur lærðu um sögu þrælahalds væri þetta tæpast besta leiðin til þess.

Skólastjórinn baðst margfaldlega afsökunar á því að börnin skyldu hafa verið send heim með viðlíka verkefni og þakkaði móðurinni fyrir að vekja máls á því. Börnin í fjórða bekk í þessum tiltekna skóla verða hér eftir send heim með önnur heimaverkefni tengd sögu þrælahalds í Bandaríkjunum.

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV