Nautum sem átu kjötmjöl fargað í þessum mánuði

13.01.2018 - 15:56
Nautgripir.
Úr myndasafni.  Mynd: RÚV
Forstjóri Matvælastofnunar segir skort á aðstöðu, vangetu sláturhúsa til að taka við nautgripum og ósk bónda um að fresta förgun fram yfir dómsmál - ástæðurnar fyrir því að níu mánuði hafi tekið að farga nautgripum sem stofnunin úrskurðaði fyrir níu mánuðum að skyldi farga. Stofnunin stefnir þó að því að það verði gert fyrir lok mánaðarins.

Fréttastofa sagði á miðvikudag frá því að ekki væri búið að farga nautgripum á Eystri-Grund við Stokkseyri þrátt fyrir að Matvælastofnun hefði ákveðið fyrir níu mánuðum að það skyldi gert. Bóndinn hefur síðan þá þurft að fóðra gripina, en ekki mátt láta slátra þeim og því engar tekjur haft af þeim. Bannið kom til vegna gruns um að nautin hefðu komist í kjötmjöl og gætu því verið smituð af riðu.

Fréttastofa óskaði eftir nánari skýringum á þessu frá forstjóra Matvælastofnunar, og sendi Jón Gíslason forstjóri svar í gær. Þar segir hann að niðurskurður gripanna hafi tafist um of en ástæðurnar fyrir þessu séu þrjár. Fyrst hafi bóndinn beðið ráðuneytið um frestun á réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Þeirri beiðni hafi verið hafnað seinni partinn í júní. 

Í öðru lagi þurfi aflífun nautgripanna að fara fram þannig að sem minnst smithætta hlytist af. Ekki sé til brennsla sem taki við stórgripum og því þurfti að kanna aðrar leiðir. Farið hafi verið yfir kostnað og umfang aðgerða miðað við brennslu hjá Kölku á Suðurnesjum og skoðaður möguleiki á urðun með tilliti til löggjafar og sóttvarna í samráði við ýmsar stofnanir. Niðurstaðan var sú að leita yrði annarra leiða.

Að lokum hafi verið samið um að fara með gripina í sláturhús, fjarlægja áhættuvefi, til dæmis haus, mænu og milta og setja í brennslu hjá sláturhafa til að uppfylla smitvarnir. Síðan hafi átt að vinna skrokkana í kjötmjöl og síðan farga því. Þegar til kom gat sláturhúsið ekki tekið við nautgripunum meðan á sauðfjárslátrun stóð. 

Eftir sláturtíð hafi svo gámar verið settir upp að Eystri-Grund til að setja í þá fóður og handsama nautin í hann. Bóndinn hafi hins vegar ekki verið tilbúinn til að gera það fyrr en hann fengi staðfestingu á bótum. Ráðuneytið staðfesti að bætur yrðu greiddar í desember, en í janúar hafi ráðuneytið svo upplýst Matvælastofnun að fjárhæðin yrði ekki ákveðin fyrr en búið væri að farga dýrunum.

Matvælastofnun hefur í samræmi við þetta tilkynnt bóndanum að gripunum verði fargað fyrir lok þessa mánaðar.