Nær 800 handtekin í Túnis og enn er mótmælt

13.01.2018 - 03:37
Erlent · Afríka · Túnis · Stjórnmál
epa06433395 Tunisian protesters shout slogans during a demonstration after the government announced tax hikes and austerity measures and against increased prices of some goods in Tunis, Tunisia, 12 January 2018. Protests were held across Tunisia since 08
Mótmælendur í Túnis sýna stjórnvöldum gula spjaldið og kyrja slagorð gegn verðhækkunum og fyrirhuguðum skattahækkunum og niðurskurði opinberrar þjónustu  Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Nær 800 hafa verið handtekin í tengslum við hörð og viðvarandi mótmæli á götum og torgum fjölmargra borga í Túnis í vikunni. Fólk mótmælir verð- og skattahækkunum og fleiri umdeildum efnahagsaðgerðum stjórnvalda sem bitna á afkomu alls almennings. Reiknað er með að mótmæli eigi eftir að halda áfram um helgina og færast í aukana frekar en hitt og ná hámarki á sunnudag.

Þann dag, 14. janúar, er þess minnst að þá verða sex ár liðin síðan hinum þaulsætna forseta Zine El Abidine Ben Ali var steypt af stóli í jasmínubyltingunni svokölluðu, sem talin er marka upphaf arabíska vorsins.

Mótmælin hófust fyrir alvöru í byrjun þessarar viku. Þau voru tiltölulega fámenn til að byrja með, en giska harkaleg og á mörgum stöðum í landinu. Mótmælt hefur verið í á þriðja tug borga hið minnsta og samkvæmt fréttum AFP og Al Jazeera hefur mótmælendum vaxið ásmegin. Talsmaður innanríkisráðuneytisins fullyrti aftur á móti í útvarpi á föstudag að mótmælin virtust í rénun.

Rupert Colville, talsmaður Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, kallaði eftir því á föstudag að stjórnvöld í Túnis tryggðu fundar- og tjáningarfrelsi borgaranna, um leið og hann hvatti mótmælendur til að sýna stillingu.

Ítrekað hefur slegið í brýnu milli mótmælenda og óeirðalögreglu, og herinn hefur nú sent um 2.100 manna liðsafla til hinna ýmsu staða á landinu til að aðstoða lögreglu við að berja niður mótmælin. Colville segist hafa áhyggjur af þeim mikla fjölda mótmælenda sem búið er að handtaka, 778 handtökur hafi verið staðfestar til þessa síðan á mánudag og um þriðjungur hinna handteknu séu ungmenni á aldrinum 15 til 20 ára. Brýndi hann stjórnvöld til að handtaka hvorki fólk né halda því innilokuðu af handahófi og geðþótta. 

Hinar boðuðu og umdeildu efnahagsaðgerðir stjórnvalda felast annars vegar í niðurskurði útgjalda til opinberrar þjónustu og hins vegar í hækkunum á sköttum og öðrum opinberum gjöldum, sem leiða munu til verðhækkana á ýmsum nauðsynjavörum, þar á meðal eldsneyti og matvöru.

Þessar hækkanir leggjast ofan á þær hækkanir sem þegar hafa orðið vegna vaxandi verðbólgu og lækkandi gengis túníska dínarsins síðasta árið. Til að bæta gráu ofan á svart hefur atvinnuleysi einnig farið vaxandi. Túníska stjórnin samþykkti að fara út í þessar aðgerðir að kröfu stærsta lánardrottins ríkisins, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem setur þær sem skilyrði fyrir áframhaldandi fyrirgreiðslu sjóðsins. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV