Ná ekki í lið vegna Evrópumótsins

19.07.2017 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd: Kaffið.is  -  RÚV
Evrópumót kvenna í Hollandi virðist ætla að hafa áhrif á 1.deild kvenna hér á landi en 1. deildarliðið Hamrarnir mætir Sindra í fallbaráttuslag á laugardaginn kemur. Gallinn er sá að Hamrarnir ná varla í lið sökum þess hve margir leikmanna liðsins eru í Hollandi að fylgjast með stelpunum okkar.

Þetta kemur fram á Kaffið.is en þar er vitnað í Facebook færslu Rakelar Óla Sigmundsdóttur en hún er leikmaður liðsins.

Ná ekki í lið vegna Evrópumótsins

Hamrarnir koma frá Akureyri og er einskonar B-lið Þórs/KA. Liðin þrjú eru til að mynda í samstarfi í 2.flokki og heitir liðið því Þór/KA/Hamrarnir í þeim aldursflokki. Það þýðir að leikmenn 2.flokks Þórs/KA eru gjaldgengir með Hömrunum í meistaraflokki. 

Þess má til gamans geta að Þór/KA/Hamrarnir sitja í 1.sæti A-deildar í 2.flokki en liðið hefur unnið sex og gert eitt jafntefli í þeim sjö leikjum sem það hefur spilað í sumar. Einnig eru þær komnar í undanúrslit í bikarkeppninni.

Ástæðan fyrir því að Hamrarnir ná líklega ekki í lið á laugardaginn kemur er sú að margir leikmenn liðsins æfa reglulega með meistaraflokki Þórs/KA og eru nú staddir í Hollandi þar sem Þór/KA er í æfingaferð ásamt því að fylgjast með landsliðinu keppa á EM.

Of seinar að biðja um frest samkvæmt KSÍ

Hamrarnir sendu Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) beiðni um að færa leikinn þann 7. júlí. KSÍ vill meina að það sé ekki hægt en sambandið bað öll félög um að láta sig vita í vetur ef þau þyrftu að fresta leikjum á meðan Evrópumótið væri í gangi.

„Hamrarnir fengu stuðning frá forráðamönnum Þórs/KA og bentu á að ferðin hefði ekki verið á dagskrá þegar hægt var að biðja um frí vegna EM í vor. Það hefði því verið ómögulegt fyrir þær að gera ráð fyrir þessu.“

KSÍ virðist ekki ætla að falla frá ákvörðun sinni en hún gæti á endanum haft veruleg áhrif á það hvort Hamrarnir falli úr 1.deild. Sem stendur er liðið í 8. sæti með 10 stig á meðan Sindri er í því 7. með 12 stig.

Víkingur Ólafsvík er svo í 9. sæti með sjö stig og leik til góða á bæði liðin fyrir ofan sig. Liðin í 9. og 10. sæti falla niður í 2.deild.

Var frí á EM hjá körlunum

Rakel tekur fram að þegar karlalandsliðið var á Evrópumótinu í Frakklandi síðasta sumar þá hafi verið gert hlé á leik í 1.deild kvenna. Nú þegar kvennalandsliðið sé á Evrópumóti þá sé hins vegar ekkert frí gert á deildinni.

„Afhverju í ósköpunum gildir ekki það sama um okkur, og það sem meira er af hverju er KSÍ í það minnsta ekki liðlegt þegar lið eru með mannskap þarna úti.“ Segir Rakel á Facebook síðu sinni.

Ofan á allt saman er leikurinn er settur á klukkan 14:00 á laugardaginn. Það þýðir að leikmenn eru varla komnir inn í klefa og búnir að ná andanum þegar leikur Íslands og Sviss hefst í Hollandi. 

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður