N-Kórea líklega með á Ólympíuleikunum

Mynd með færslu
 Mynd: RUV/Skjáskot  -  RUV
Norður-Kórea sendir að öllum líkindum keppendur til leiks á Vetrarólympíuleikana í Pyeongchang í næsta mánuði. AFP fréttastofan hefur þetta eftir japönskum fjölmiðlum. Chang Ung, sendiráðunautur Norður-Kóreu hjá Alþjóðaólympíunefndinni greindi blaðamönnum frá þessu á flugvellinum í Peking, þar sem hann staldraði stutt við. Búist er við því að hann sé á leið til fundar við aðalstjórn Alþjóðaólympíunefdarinnar í Sviss.

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, greindi frá því í nýársávarpi sínu að hann vildi senda fulltrúa ríkisins á Ólympíuleikana í Suður-Kóreu í næsta mánuði. Stjórnvöld í Seúl brugðust skjótt við og buðu honum og stjórn hans til viðræðna í næstu viku. Norður-kóresk stjórnvöld þekktust það boð í gæ.

Skömmu fyrir samþykkið höfðu stjórnvöld í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu samþykkt að fresta sameiginlegum heræfingum, sem staðið hafa nær sleitulaust í nokkra mánuði, þar til eftir Ólympíuleikana. Samninganefndir ríkjanna koma saman á þriðjudag í þorpinu Panmunjom, sem er á hlutlausa svæðinu við landamæri ríkjanna. Þar stendur einnig til að ræða hvernig mögulegt er að bæta samskipti ríkjanna, en þau hafa verið stirð eftir mikla spennu undanfarna mánuði. Þetta verður í fyrsta sinn í um tvö ár sem fulltrúar ríkjanna ræðast við.