Myndirnar koma eins og innbrotsþjófur að nóttu

Kvikmyndir
 · 
Menningin
 · 
RIFF 2017
 · 
Werner Herzog
 · 
Menningarefni

Myndirnar koma eins og innbrotsþjófur að nóttu

Kvikmyndir
 · 
Menningin
 · 
RIFF 2017
 · 
Werner Herzog
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
30.09.2017 - 15:47.Bergsteinn Sigurðsson.Menningin
„Ég vissi hvað ég ætlaði að leggja fyrir mig í lífinu. Þetta snerist meira um hvort ég sætti mig við og tæki ábyrgð á örlögum mínum, því ég vissi að þetta yrði erfitt líf,“ segir þýski kvikmyndaleikstjórinn Werner Herzog, sem er heiðursgestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík - RIFF - í ár.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Werner Herzog kemur til Íslands, en nýjasta heimildamynd hans var að hluta tekin upp hér á landi. „Þegar ég var hér áður þá handlék ég handritið að Konungsbók, Sæmundareddu,“ segir hann, „og ég myndaði það í síðustu mynd minni, Into the Inferno, af því hún fjallar um eldfjöll. Það er svo ótrúlegur kjarni heillar þjóðar, slíkt innsta eðli skáldskapar og fegurðar. Og ég hef mikið dálæti á skáldskap.“

Aflaði fjár fyrir fyrstu myndina á næturvöktum í stáliðjuveri

Ferill Werner Herzog spannar ríflega hálfa öld. Hann var einn af brautryðjendum Nýju þýsku kvikmyndastefnunnar og meðal annars þekktur fyrir langt og stormasamt samstarf við leikarann Klaus Kinski. Herzog hefur gert 20 leiknar kvikmyndir  og um 30 heimildamyndir í fullri lengd, auk aragrúa styttri mynda, og hefur verið tilnefndur til og hlotið mörg af helstu kvikmyndaverðlaunum heims.

epa03482269 German filmmaker Werner Herzog poses for a photograph during the Cine 4+1 Festival in Rio de Janeiro, 22 November 2012. Herzog invited the audience during his master class in Brazil's Cultual Bank to 'get away' from film schools
 Mynd: EPA

„Það var einhvern veginn í mér,“ segir Herzog um það hvernig hann dróst að kvikmyndagerð, ekki ólíkt því að unglingur hafi tónlistarhæfileika. „Það er sérkennilegt því ég sá ekki kvikmyndir í æsku. Ég sá ekki myndir fyrr en ég varð 11 ára. Enn frekar þá vissi ég ekki af því að kvikmyndir væru til.  En fimmtán-sextán ára fór ég að vinna að verkefnum og mér var alls staðar hent út, enda bara skólastrákur og því ekki tekinn alvarlega. En ég aflaði fjár fyrir fyrstu myndina með því að vinna sem logsuðumaður í stáliðjuveri, vann á næturvöktum. Á daginn var ég í skóla.“ 

Býr enn að mörgum góðum sögum

Umfjöllunarefni hans eru ófyrirsjáanleg og frásagnarstíllinn einstakur, enda storkar hann oft hefðbundnum efnistökum, til dæmis með því að þurrka út mörk raunveruleika og skáldskapar.

„Ég reyni að gera myndir sem eru ekki algerlega byggðar á staðreyndum,“ segir Herzog. „Annars væri símaskráin fyrir Manhattan, með fjórum milljónum nafna, sem öll stemmdu, bók bókanna. Svo að ég reyni að magna upp staðreyndirnar, laga þær til, eða gæða þær skáldskap þannig að staðreyndir taka frekar á sig svipmót sannleika en veruleikans.“

Franski leikstjórinn Francois Truffaut kallaði hann eitt sinn mikilvægasta núlifandi leikstjóra veraldar og árið 2009 valdi Time tímaritið hann einn af hundrað áhrifamestu manneskjum í heimi. Herzog  er enn afkastamikill orðinn 75 ára gamall en áðurnefnd mynd hans, Into the Inferno var tekin til sýninga hjá Netflix í fyrra.

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix

„Ég bý enn að mörgum mjög góðum sögum. Ég ann því sem ég geri. Og ég hef, eins og ég sagði, sætt mig við örlög mín. Það er einhvern veginn í mér og kvikmyndirnar koma oft til mín eins og þjófur á nóttu. Þær ryðjast inn í húsið – og ég bauð þeim ekki.“

Herzog var gestur Menningarinnar. Í viðtalinu ræðir hann meðal annars þrautseigjuna, sem sé mikilvægasti kosturi kvikmyndagerðarmannsins, ást sína á ljóðlist, yndi hans á að leika í stórmyndum á móti leikurum á borð við Tom Cruise, óbeit sína á að vera flokkaður til mestu áhrifavalda heims og hvers vegna myndir hans séu of stórar til að hefðbundin kvikmyndaver ráði við að framleiða þær. 

Viðtalið við Herzog má horfa á hér að ofan og er lengri útgáfa en sú sem birtist í Sjónvarpinu. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Barnamenning, Herzog og Norðurslóðir á RIFF

Kvikmyndir

Werner Herzog heiðursgestur á RIFF

Menningarefni

Ísland og eldklerkurinn í heimildarmynd Herzog