Myndbandið sem myrti útvarpsmanninn

MTV
 · 
Níundi áratugurinn
 · 
Popptónlist
 · 
Sjónvarp
 · 
The Eighties
 · 
Tónlist
 · 
Unglingamenning
 · 
Menningarefni

Myndbandið sem myrti útvarpsmanninn

MTV
 · 
Níundi áratugurinn
 · 
Popptónlist
 · 
Sjónvarp
 · 
The Eighties
 · 
Tónlist
 · 
Unglingamenning
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
13.02.2018 - 19:30.Nína Richter.Níundi áratugurinn
RÚV hóf á dögunum sýningar á nýjum heimildarþáttum um níunda áratuginn í Bandaríkjunum. Fjallað er um dægurmál og sögulega viðburði en einnig er poppmenningin krufin. Þar er fæðing fyrsta tónlistarsjónvarpsins rakin og sá stórviðburður þegar sjónvarpsstöðin MTV svaraði bænum unga fólksins árið 1981 og sameinaði sjónvarp og útvarp með byltingarkenndum hætti.

Afurðin var tónlistarmyndbandaveita sem sendi út tónlistarmyndbönd allan sólarhringinn.

Ókannað landsvæði

Þann 1. ágúst 1981 hóf MTV útsendingar með orðunum: „Ladies and gentlemen, rock and roll.“ Svo mælti John Lack stofnandi stöðvarinnar. Undir þessum orðum flugu rammar úr Appolo-tunglferðinni sem færðu áhorfendum vissu um að það sem kæmi á eftir væri byltingarkennt, háþróað og umfram allt ókannað land. Fyrsta efnið sem sent var út innihélt skýr skilaboð. Það var að sjálfsögðu myndbandið við stórsmellinn frá Buggles, Video killed the Radio Star.

Fæðing tónlistarmyndbandsins

Dagskránni var stýrt af VJ-um (á ensku video jockeys sem tilbrigði við disc jockey eða DJ.) Þessir þáttastjórnendur röðuðu saman lagalistum og kynntu áhorfendum nýtt og eldra efni af list og leikni. Nýjar víddir opnuðust í listsköpun og framleiðsla tónlistarmyndbanda festist í sessi sem sjálfstæð grein kvikmyndagerðar og bætti heilum heimi við umfang popptónlistar, hugmyndaheim hennar og ímynd.

Áhrif í sjónvarpsþáttagerð

MTV hafði gríðarleg áhrif á þróun sjónvarpsmenningar. Sem dæmi má nefna raunveruleikaþáttaformið sem á rætur sínar að rekja til þátta á borð við Real World sem sýndir voru á MTV. Raunveruleikasjónvarpið varð gríðarlega vinsæl tegund sjónvarpsefnis og hefur verið allar götur síðan. Einnig hefur það smitað frá sér út í aðra geira kvikmyndagerðar, bæði í tæknivinnu og efnistökum. Má þar nefna sem dæmi ýmis tískuhandbrögð í myndrænni frásögn sem vísa í hefðir raunveruleikasjónvarps, eins og að ávarpa myndavélina beint og handstýrða myndavél. Einnig má nefna svokallað mockumentary eða „svikmyndaform,“ þar sem leikið efni þykist vera heimildaefni, oftast sett fram með gamansömum hætti. Sem dæmi um slíkt má nefna hina margverðlaunuðu þætti Modern Family og Parks & Recreation.

Sameiningartákn

Þá skal ekki látið ótalið það gríðarlega sameiningargildi sem MTV hafði fyrir ungt fólk þegar tíska og tónlist líkömnuðust í vængjuð fyrirbæri sem flugu út um allan heim með tónlistar- og dansmyndböndum, tískuþáttum og öðru efni og sameinuðu unglinga heimsins þvert á menningarlegan bakgrunn. Unglingamenning fékk innspýtingu á heimsvísu. Íslenskar tíu ára stelpur sáu Spice Girls í fyrsta sinn á MTV árið 1996. Íslenskir unglingar vissu í fyrsta sinn hvernig stjörnurnar litu út, ekki bara hvernig þær hljómuðu. Og við vildum líkjast þeim og við áttum það sameignlegt með öllum öðrum sem gátu náð útsendingum þessarar höfuðstöðvar poppkúltúrs í vestrænum heimi.

Breyttur markhópur

Í upphafi var markhópur stöðvarinnar um þrjátíu ára og yngri en í seinni tíð hefur hann yngst og í dag er mestmegnis verið að þróa efni fyrir unglinga. Vægi MTV hefur breyst gríðarlega með snjalltækjavæðingu og samfélagsmiðlum. Tónlistarmyndbönd í línulegri dagskrá hafa sömuleiðis lotið í lægra haldi fyrir annars konar dagskrárgerð sem snýst að mestu leyti um framleiðslu raunveruleikasjónvarps, grínþátta og sápuópera. Youtube er aðalefnisveita tónlistarmyndbanda í dag. Tískufyrirmyndirnar eru á Instagram. Raunveruleikasjónvarpið færir sig yfir á Snapchat. MTV-stöðin er löngu farin út fyrir það að vera aðeins sjónvarpsstöð, en ótal dótturstöðvar hafa verið stofnaðar á alþjóðavísu undir merkjum MTV, auk framleiðsluvera, fréttastöðva og félagslegra hreyfinga.

Pólitísk umsvif

MTV hefur verið virk í alls konar mannúðarstarfi og baráttu fyrir félagslegum umbótum fyrir hönd ýmissa hópa og notar til þess rótgróin tengsl við áhrifavalda á borð við stjörnur í tónlistar-, tísku- og sjónvarpsheiminum. Má þar nefna sem dæmi stofnunina MTV EXIT sem berst gegn mansali, og fékk bresku stórsveitina Radiohead til liðs við sig með því að framleiða listrænt og áhrifamikið myndband við lag af plötu sveitarinnar, In Rainbows, árið 2007.