Mótmæla 20.000 tonna laxeldi í Eyjafirði

09.01.2018 - 11:50
Mynd með færslu
Veiðifélögin telja að villta laxastofninum sé búin hætta ef laxeldisáform ná fram að ganga.  Mynd: Ásgeir Jónsson  -  RÚV
Landssamband veiðifélaga leggst alfarið gegn áformum norska fyrirtækisins Akvafuture um 20.000 tonna fiskeldi í Eyjafirði. Ótímabært sé með öllu að ráðast í þær framkvæmdir, þar sem eldiskvíarnar hafi verið notaðar í skamman tíma í Noregi og því óljóst hversu fiskheldar þær eru, að mati Landssambandsins.

Lítil reynsla af kvíunum

Fram kemur í tilkynningu frá Landssambandi veiðifélaga að eldiskvíar fyrirtækisins hafi verið notaðar í skamman tíma í Noregi og „lítil reynsla komin á hversu fiskheldar þær eru. Sá búnaður sem stendur til að nota hefur ekki verið prófaður við íslenskar aðstæður. Tilgreindur búnaður er aðeins gefinn upp fyrir ölduhæð að 2 metrum og telur Landssambandið að slíkan búnað verði að meta mjög ótraustan við íslenskar aðstæður.”

Að mati sambandsins sé óforsvaranlegt með öllu að ráðast í stórfellt sjóeldi á allt að 10 milljónum laxa í svona búnaði í námunda við helstu laxveiðiár Norður- og Austurlands. 

Ný tækni þróuð af fyrirtækinu

Fyrirtækið Akvafuture er norskt fiskeldisfyrirtæki sem notast við eldistækni byggt á eigin hönnun. Fyrirtækið vill ala allt að 20.000 tonn af laxi í Eyjafirði í lokuðum sjókvíum, og hefur hafið umsóknarferlið með birtingu tillögu að mati á umhverfisáhrifum, er fram kemur á vef Fiskifrétta. Þar segir Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að málið sé stutt á veg komið en tæknin sé vissulega nýlunda. Ef af verður, er eldið fyrirhugað á sex aðskildum eldissvæðum í innanverðum Eyjafirði frá Hjalteyri að Svalbarðseyri.

Mynd með færslu
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV