Móðir „nordic noir“ hættir störfum hjá DR

Sjónvarp
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Móðir „nordic noir“ hættir störfum hjá DR

Sjónvarp
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
12.10.2017 - 14:39.Davíð Kjartan Gestsson
Piv Bernth, yfirmaður leikins efnis hjá danska ríkisútvarpinu DR, hefur sagt stöðu sinni lausri til að koma á fót nýju framleiðslufyrirtæki. Fjórir aðrir starfsmenn DR hætta einnig störfum til að hefja störf hjá framleiðslufyrirtækinu.

Piv Bernth, yfirmaður leikins efnis hjá danska ríkisútvarpinu, hefur sagt stöðu sinni lausri. Hún lýkur störfum að loknum nóvembermánuði 2017 til að koma á fót nýju einkareknu framleiðslufyrirtæki.

Fjórir aðrir starfsmenn DR hætta einnig störfum, Lars Hermann varamaður yfirmanns leikins efnis og þrír framleiðendur, Dorte Riis Lauridsen, Anders Toft Andersen og Karoline Leth. Þau hefja öll störf hjá fyrrnefndu framleiðslufyrirtæki.

Sárt saknað

Í tilkynningu DR segir að þeirra verði sárt saknað, en að haldið verði áfram að byggja á þeim trausta grunni sem Piv Bernth hefur lagt.

Vefmiðillinn Altinget.dk hermir að Tine Smedegaard Andersen menningarstjóri DR sé vonsvikin yfir ákvörðun Bernth. „Það er engum blöðum um það að fletta að þetta er mikill missir fyrir DR,“ segir hún í viðtali við miðilinn. „Ég hefði viljað að hún héldi áfram störfum hjá okkur, en hef skilning á því að hún vilji reyna eitthvað nýtt.“

Þurfum að sækja fram

Rætt var við Piv Bernth í Menningunni á RÚV fyrir skömmu um stöðu norræns sjónvarpsefnis. Þar sagði hún að norrænir framleiðendur ættu að forðast stöðnun, að þeir þyrftu „að sækja fram, koma með nýjungar, vera áræðnir og skapandi og finna nýjar leiðir til að segja sögurnar.“

Bernth er á þeirri skoðun svokallað „Nordic Noir“, sem hefur víða notið mikilla vinsælda síðustu ár, sé búið að vera, en að vinsældir norræns sjónvarpsefnis séu þrátt fyrir allt alls engin bóla sem líði undir lok. 

Piv Bernth hefur starfað sem yfirmaður leikins efnis hjá DR síðan 2012. Hún hefur framleitt þætti á borð við Nikolaj og Julie og Forbrydelsen og er stundum nefnd móðir „Nordic Noir“-senunnar.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Nordic noir“ er búið að vera

Bretar eru brjálaðir í Nordic Noir