Minnst tíu dáið í skógareldum í Kaliforníu

10.10.2017 - 11:53
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í norðurhluta Kaliforníu vegna kjarr- og skógarelda. Tuttugu þúsund manns hafa verið flutt frá heimilum sínum og að minnsta kosti tíu hafa farist. Hundruð heimila og fyrirtækja hafa gjöreyðilagst í eldunum.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í þremur sýslum, Napa, Sonoma og Yuba, sem allar eru norðan San Francisco borgar. Að minnsta kosti fimmtán hundruð hús hafa brunnið og yfir tuttugu þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín. Ekkert er vitað um afdrif hundraða og margra er saknað.

Yfirmenn slökkviliðsmála í Kaliforníu áætla að um það bil tuttugu þúsund hektarar séu þegar brunnir. Eldar loga á að minnsta kosti fjórtán stöðum og eru sagðir víðfeðmustu kjarr- og skógareldar í mannaminnum í Kaliforníu. Ástandið hefur verið einna verst nálægt Santa Rosa og Napa og Sonoma þar sem ekki hefur tekist að hemja eldana en Napa og Sonom eru meðal þekktustu vínræktarhéraða Bandaríkjanna. Fregnir herma að fjölmörgu starfsfólki á vínekrunum hafi verið forðað burt með þyrlum. Veðuraðstæður valda því að eldarnir breiðast hratt út, en loftraki er lítill, heitt í veðri og hvasst og þurrt, og þetta torveldar slökkvistarf.