Minnst 20.000 mótmæltu ríkisstjórn Austurríkis

14.01.2018 - 02:42
epa06397046 Protests during the inauguration of the new coalition government between Austrian Peoples Party (OeVP) and the right-wing Austrian Freedom Party (FPOe) at the presidential office of the Hofburg Palace in Vienna, Austria, 18 December 2017. The
Nokkur þúsund manns söfnuðust saman í miðborg Vínarborgar þegar ný stjórn Þjóðar- og Frelsisflokksins tók þar við völdum 18. desember síðastliðinn. Mótmælin voru þó miklum mun fámennari en síðast þegar þessir flokkar mynduðu stjórn, árið 2000.  Mynd: EPA
Minnst 20.000 manns söfnuðust saman í Vínarborg í dag og mótmæltu ríkisstjórn Þjóðar- og Frelsisflokksins. Er það einkum stjórnarþátttaka Frelsisflokksins sem mótmælendum er í nöp við, en stefnumál hans þykja hafa óþægilega mikinn samhljóm með málflutningi nasista. Samtökin Ömmur gegn öfgahægri og Róttækir vinstrimenn voru á meðal mótmælenda, sem gengu flautandi og kyrjandi um götur Vínar með slagorðaskilti á lofti.

Saka mótmælendur ríkisstjórnina um rasisma, fasisma og útlendingaandúð í stefnu sinni og aðgerðum. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hve margir mótmælendur voru, enda margir á ferli í miðborginni í öðrum erindagjörðum en að mótmæla. Lögregla segir þá hafa verið um 20.000, en skipuleggjendur mótmælana tala um minnst 80.000.

Hávær og afar fjölmenn mótmæli voru víða í Austurríki þegar Þjóðarflokkurinn myndaði samsteypustjórn með Frelsisflokknum fyrsta sinni árið 2000. Þegar þessir sömu flokkar mynduðu meirihlutastjórn í desember síðastliðnum voru mótmæli hvorki jafn útbreidd né fjölmenn. Mótmæli laugardagsins eru með þeim fjölmennari frá stjórnarmynduninni, og þau langfjölmennustu, fari mat skipuleggjendanna nærri sanni.