Miklir vatnavextir á Austur- og Suðausturlandi

12.01.2018 - 13:10
Mynd með færslu
Vegagerðarmenn að störfum á Fagradal í morgun  Mynd: RÚV  -  Rúnar Snær Reynisson
Hvergi hafa orðið teljandi skemmdir í miklum vatnavöxtum á Austur- og Suðausturlandi í morgun. Starfsmenn Vegagerðar og sveitarfélaga hafa brugðist við þar sem þurft hefur að hreinsa ræsi og veita til vatni. Á annað hundrað manns gistu um borð í Norrænu á Seyðisfirði í nótt, en brottför þaðan var frestað vegna veðurs.

Það hefur rignt mismikið á Austurlandi í morgun því að á meðan úrhellisrigning er á Suðausturlandi og inn til landsins, hefur mun minna rignt norðar á Austfjörðum. Hjá Vegagerðinni hafa menn verið á ferðinni síðan sex í morgun og tiltölulega gott ástand er á vegum. Grjóthrun er þó í Hvalnes- og Þvottárskriðum og Vattarnesskriður eru ófærar vegna grjóthruns.

Lækur rennur yfir þjóðveginn í Berufirði

Reynir Gunnarsson hjá Vegagerðinni á Hornafirði segir starfsmenn hafa þurft að grípa til aðgerða á þjóðvegi eitt um Berufjörð. „Það rennur yfir veginn sunnarlega í Berufirði. Það er lækur þar sem fer ekki alveg rétta leið og við erum með tæki þar. Þetta er alveg fært en menn þurfa að gæta sín. Vegurinn er opinn en það getur svo sem allt gerst ef það heldur áfram að rigna mikið, en við vonum nú að þetta sleppi,“ segir Reynir. Hann segir ágætis ástand á vegum þegar sunnar dregur, í Öræfum og vestur að Vík. Þar hefur þurft að hreinsa snjó og klaka frá ræsum og þarf að fylgjast vel með, sérstaklega þegar líður á daginn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Rúnar Snær Reynisson
Vatn á þjóðvegi eitt í Fáskrúðsfirði

Þurfti að hreinsa frá ræsum á Fagradal

Ari B. Guðmundsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði, segir minni rigningu á annesjum og þekktir skriðustaðir hafi því sloppið. Hans menn fóru upp á Fagradal í morgun til að hreinsa snjó frá ræsum og úr vegköntum og passa að vatnið kæmist sína leið. Þá rennur yfir þjóðveg eitt í Fáskrúðsfirði.

Ástandið gæti versnað þegar líður á daginn

Hjá Fjarðabyggð var vakt í alla nótt og þar sagði bæjarverkstjóri að ekkert hafi dregið til tíðinda enn þá að minnsta kosti. Þar vex hægt í lækjum, en mikill sjór er alls staðar í fjöllum og hlýtt þannig að þar gæti ástandið versnað ef bætir í rigninguna í dag.

Truflanir á flugi og brottför Norrænu seinkar

Um 80 farþegum úr ferjunni Norrænu var ráðið frá því að halda yfir Fjarðarheiði í gærkvöld vegna veðurs. Fólkið fékk að gista í ferjunni en þar gistu líka um 30 farþegar sem ætluðu með henni frá Seyðisfirði, en brottför var frestað vegna veðurs. Þá hefur veðrið haft áhrif á flugið, en ekkert hefur verið flogið til Egilsstaða, Ísafjarðar og Hornafjarðar í morgun.

Mynd með færslu
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV