Miklar tekjur í súginn vegna tómrar blokkar

09.01.2018 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson  -  RÚV
Stapi lífeyrissjóður hefur orðið af tugum milljóna í leigutekjur vegna fjölbýlishúss sem hefur staðið autt svo mánuðum skiptir. Framkvæmdastjórinn harmar að blokkin hafi ekki verið tekin í notkun, en telur að sjóðurinn tapi ekki á fjárfestingunni. 

Stapi keypti 35 íbúða blokk í Undirhlíð á Akureyri og var stefnan að leigja íbúðirnar út. Blokkin var keypt af verktaka og var fullbúin í ágúst. Þegar skipt var um stjórnendur hjá Stapa var hætt við að leigja út íbúðirnar og ákveðið að selja blokkina í heilu lagi. Það hefur hins vegar ekki gengið og nú, um hálfu ári seinna, hefur enginn flutt inn í blokkina og því stendur hún enn tóm.  

Hætta við að selja blokkina í heilu lagi

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, segir að söluferli hafi verið langt komið fyrir áramót en ekki hafi tekist að ljúka því. Nú á að reyna að selja íbúðirnar hverja fyrir sig. „Við gerum ráð fyrir því að íbúðirnar verði til sölu fyrir almenning núna, svo snemma sem í næstu viku,“ segir Jóhann. 

Íbúðirnar eru á bilinu 60 til 130 fermetrar. Ef meðalleiguverð væri 160 þúsund krónur á mánuði, í samræmi við markaðsverð, þá eru um 34 milljónir sem ekki hafa skilað sér í tekjur frá því blokkin var tilbúin, á meðan sjóðurinn þarf að borga hita, rafmagn, fasteignagjöld og fleira.

Telur að ávöxtun verði viðunandi

Þó telur Jóhann að tap verði ekki af fjárfestingunni. „Við höfum ákveðnar hugmyndir um það hvers virði blokkin er í dag. Það hefur orðið ákveðin breyting á markaðsverði á fasteignum og við eigum ekki von á öðru en að það verði viðunandi ávöxtun af eigninni,“ segir hann. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson  -  RÚV

Slæmt að blokkin standi auð

Líkt og annars staðar er húsnæðisskortur á Akureyri og hefur fasteignaverð hækkað. Það smitar út frá sér og hefur biðtími eftir íbúð á vegum bæjarins verið að lengjast og getur nú verið um fimm ár. Jóhann segir að í slíku árferði sé slæmt að heil blokk sé ekki í notkun. „Þetta fór ekki í það ferli sem við ætluðum okkur og við hörmum það auðvitað að blokkin hafi staðið auð í þennan tíma. En því miður er þetta staðan og við erum að reyna að vinna úr henni eins og best verður á kosið,“ segir Jóhann.