Mikilvægt að taka frásagnir barna alvarlega

Skylt er, samkvæmt lögum, að tilkynna um ofbeldi gegn börnum. Sláandi er að heyra frásagnir kvenna í íþróttum af brotum, sem sum voru framin þegar þær voru börn, segir umboðsmaður barna.

Íþróttakonur sendu frá sér yfirlýsingu í gær, ásamt 62 frásögnum af kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun. Margar frásagnir voru af grófu kynferðisofbeldi og nauðgunum. „Það er svo mikilvægt þegar um börn er að ræða að það sé hlustað á þau þannig að það sé tekið alvarlega sem þau segja og að það sé brugðist við,“ sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttamann í kvöldfréttum sjónvarps í kvöld. Salvör segir augljóst af frásögnum íþróttakvennanna að ekki hafi verið hlustað á þær. Hafi það verið gert hafi málin jafnvel verið þögguð niður og þær ekki teknar alvarlega.

„Þetta er auðvitað stórmál þegar um börn er að ræða því að þegar við verðum vitni að ofbeldi gegn börnum ber okkur skylda til að tilkynna það, samkvæmt lögum,“ segir hún. 

Hver er ábyrgð íþróttafélaganna?

„Allir sem vinna með börnum í íþrótta- og æskulýðsstarfi bera gríðarlega mikla ábyrgð. Við treystum þeim fyrir börnunum okkar og þannig er það auðvitað íþróttahreyfingarinnar og allra okkar að breyta þessu.“

Salvör kveðst fagna því að menntamálaráðherra ætli að setja á fót starfshóp til að vinna að úrbótum í málaflokknum. Þá segir hún augljóst af viðbrögðum íþróttahreyfingarinnar að málið sé tekið alvarlega.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.