Mikilvægt að rannsaka plastbarkamálið

24.01.2017 - 13:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilbrigðisráðherra segir að draga verði lærdóm af plastbarkamálinu og afar mikilvægt sé að rannsaka það til fulls. Hann vill að ný stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis beiti sér fyrir áframhaldandi rannsókn málsins. Hann telur fullkomlega eðlilegt að bæði Háskóli Íslands og Landspítali komi að þeirri rannsókn. 

Kastljósið hefur á ný beinst að plastbarkamálinu svokallaða, sér í lagi eftir að RÚV sýndi þriggja þátta heimildarmynd sænska sjónvarpsins um plastbarkaígræðslur ítalska læknisins Paolos Macchiarini. Hann græddi plastbarka í menn án þess að prófa aðferðina fyrst á dýrum eða hafa til þess öll tilskilin leyfi. Tveir íslenskir læknar tengjast málinu, meðal annars sem meðhöfundar í Læknatímaritinu Lancet, þar sem plastbarkaaðgerð sem Macchiarini gerði er lýst sem vel heppnaðri.

Í fréttum um helgina sögðu bæði Ögmundur Jónasson, fráfarandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og Brynjar Níelsson, fráfarandi varaformaður, að brýnt væri að fá óháða opinbera rannsókn á aðkomu Landspítalans og Háskóla Íslands að þessu máli og aðra en þá sem gerð hafi verið á vegum stofnananna tveggja. Þeir benda á að vilji Alþingis hafi staðið til þess.

„Ég tek undir það að það er mikilvægt að rannsaka málið og komast til botns í þessu,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á síðasta þingi vann með málið og skildi eftir þau skilaboð að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem tæki við ætti að halda áfram og ég vil bara taka undir það.“

Finnst þér rétt að háskólinn komi að þessari rannsókn? „Mér finnst fullkomlega eðlilegt að háskólinn og spítalinn rannsaki málið, auðvitað þarf að læra af svona máli,“ svarar Óttarr.