Mikilli rigningu spáð sunnan og suðaustanlands

12.01.2018 - 08:16
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands  -  RÚV
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Austfirði og Suðausturland en þar er spáð mikilli rigningu með hlýindum fram á kvöld. Veðurstofan varar sérstaklega við vexti í ám í Lóni og Álftafirði en samfara aukinni úrkomu og afrennsli geta líkur á skriðuföllum aukist.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Austurland að Glettingi en veðurstofan spáir þar sunnan 18 til 25 metrum á sekúndu og hviðótt. Vegfarendur eru því beðnir um að sýna aðgát.

Á Austfjörðum er í gildi appelsínugul viðvörun. Þar er spáð hvassri suðaustanátt með talsverðri rigningu en mikilli sunnan til. „Búast má við talsverðum vatnavöxtum í ám og lækjum sem gætu raskað samgöngum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Appelsínugul viðvörun er einnig í gildi á Suðausturlandi. „Hvöss suðaustanátt og mikil rigning, búast má við talsverðum vatnavöxtum í ám og lækjum, einkum á svæðinu austan Öræfa,“ segir í spá Veðurstofunnar.

Mynd með færslu
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV