Mestu hópuppsagnir frá 2011

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson  -  RUV.is
Fleira fólk missti vinnuna í hópuppsögnum í fyrra en gerst hafði á einu ári síðan 2011. Nær tveir af hverjum fimm sem sagt var upp í hópuppsögnum í fyrra störfuðu í fiskvinnslu.

Samkvæmt yfirliti Vinnumálastofnunar var 632 sagt upp í sautján hópuppsögnum í fyrra. Langflest störfuðu í fiskvinnslu, alls 38 prósent þeirra sem sagt var upp með þessum hætti. Það eru hátt í tvöfalt fleiri en í þeirri atvinnugrein sem kemur næst, iðnaði sem var með 20 prósent hópuppsagna á síðasta ári. Þess má geta að þótt svo hátt í helmingur hópuppsagna hafi verið í fiskvinnslu stendur sú grein undir innan við þremur prósentum starfa á vinnumarkaði. Þar ráða hvað mestu hópuppsagnir HB Granda á Akranesi, Frostfisks í Þorlákshöfn og Fiskiðjunnar Bylgju í Ólafsvík.

Meirihluti hópuppsagna var á höfuðborgarsvæðinu. Þar störfuðu 56 prósent þeirra sem misstu vinnuna í hópuppsögnum. Vesturland og Suðurland urðu þó hlutfallslega verst úti. Í hvorum landshluta um sig störfuðu um 20 prósent þeirra sem misstu vinnuna í hópuppsögnum. Til samanburðar búa um átta prósent landsmanna á Suðurlandi og innan við fimm prósent á Vesturlandi. 

Uppsagnirnar 632 í fyrra eru þær mestu í hópuppsögnum á einu ári frá 2011. Þá var 752 sagt upp í hópuppsögnum. Flest misstu vinnuna í hópuppsögnum á mánuðunum eftir hrun, hátt í sjö þúsund manns árin 2008 og 2009.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV