Margir vildu styrkja án þess að kaupa flugelda

02.01.2018 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Björgunarsveitarmenn í björgunarsveitinni Kili á Kjalarnesi seldu enga flugelda fyrir áramótin. Það er gert til að minnka álag á mannskapnum svo hann væri tilbúinn í útkall, en að kom einmitt til þess á Gamlársdag. Ritari sveitarinnar segir þetta fjárhagslegt tjón en margir hafi leitað til sveitarinnar og viljað styrkja björgunarsveitirnar án þess að kaupa flugelda. 

Björgunarsveitin Kjölur ákvað í janúar í fyrra að selja ekki flugelda í ár. Ástæðan var aðallega sú að flugeldavertíðin útheimtir mikla vinnu og sveitin er frekar fámenn. Flugeldasalan er lang stærsta fjáröflun flestra björgunarsveita landsins og fæstar mættu við því að sleppa henni. Kjalarmenn tóku þessa ákvörðun einnig til að geta verið viðbúnir ef slys verði rétt fyrir áramót. Og útkallið kom á Gamlársdag en þá voru björgunarsveitir frá Akranesi, Kjalarnesi og Reykjavík kallaðar út til leitar í Hvalfirði. Anna Filbert, ritari Kjalar, segir að það hefði verið erfitt að manna útkallið ef flugeldasalan hefði verið í gangi. Svo hafi ekki verið en björgunarsveitarmenn gefi sér þó alltaf tíma. 

Mikill áhugi frá umhverfisverndarsinnum

Anna segir að það hafi átt sér nokkurn aðdragana að hætta flugeldasölu en viðbrögðin hafi verið framar vonum. „Það hafa margir lagt inn. Fólk hefur verið að forvitnast með reikningsnúmer, þeir sem vilja ekki kaupa flugelda hafa kannski snúið sér að okkur. Við höfum fengið góð viðbrögð og það eru aðallega umhverfissjónarmið sem ráða för, segir Anna. „Það kom okkur á óvart að það væri hópur þarna úti sem hefði áhuga á að styrkja björgunarsveitir sem væru ekki að selja flugelda.“

Anna segir að álagið á sveitina sé mikið á þessum árstíma. „Við erum það fá að þetta er alltaf sama fólkið sem er í öllu. Flugeldavertíðin er svolítill toppur, útheimtir mikla vinnu og helmingur sveitarinnar er fjölskyldufólk með ung börn þannig að þetta hefur átt sér aðdraganda. Svo er líka samkeppnin, við erum með lítinn markað á Kjalarnesi og fáa möguleika til að stækka hann, en aðallega er þetta gert til að minnka álagið. Þetta þýðir tekjutap en á móti kemur þá reynum við finna eitthvað annað. Neyðarkallinn er okkar stærsta fjáröflun og hann er mun einfaldari í framkvæmd fyrir okkur.“ segir Anna. 

Skutu upp flugeldum sem íbúar keyptu

Björgunarsveitarmenn fengu þó aðeins að snerta á flugeldunum því íbúar á Kjalarnesi keyptu flugelda sem björgunarsveitarmenn skutu upp á brennu á Gamlárskvöld. „Við vorum með sýningu sem íbúar söfnuðu fyrir, þeir keyptu vörur sem við skutum upp. Annars komum við ekkert nálægt flugeldum í ár,“ segir Anna.

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV