Manndráp á Íslandi

10.01.2018 - 14:22
Manndráp eru tiltölulega fátið á Íslandi. Á síðari hluta 20. aldar eru 1-2 manndráp á ári að jafnaði. Frá síðustu aldamótum hafa verið framin 36 manndráp sem þýðir að jafnaði um tvö á ári. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands segir í viðtali í Samfélaginu að gróflega reiknað þýði það um 0.5 manndráp á ári fyrir hverja 100 þúsund íbúa. Þetta er lægri tala en á öðrum Norðurlöndum og telst lágt í alþjóðlegum samanburði.

 

Helgi segir að í manndrápum þessarar aldar séu yfirleitt bæði gerendur og fórnarlömb ungir karlar þótt undantekningar séu þar á. Tiltölulega fá mál eru óupplýst og flest þeirra upplýsast fljótt.

Um Guðmundar- og Geirfinnsmálið segir Helgi: „ Ég tel að í raun og veru að þá vitum við ekkert meira um málið í dag en við vissum 1974….það eina sem við vitum er að það eru þarna tveir karlar sem hverfa þarna 1974, í byrjun árs og í lok árs en í rauninni vitum við ekkert umfram það.“

Helgi telur að taka þurfi málið upp að nýju og þá hljóti niðurstaðan að verða sú að sýkna þurfi sakborninga, ekki endilega vegna sakleysis þeirra þótt hann telji að svo sé, „ við munum bara sýkna þá á þeim grundvelli að sektardómarnir á sínum tíma, þeir eru ekki nógu trúverðugir, þeir byggja raunverulega á sandi.“

 

Mynd með færslu
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður
Samfélagið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi