Lögreglan varar við „ástarsvindli“ á netinu

14.01.2018 - 12:23
Tölva
 Mynd: Pexels.com
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk við svokölluðu ástarsvindli á netinu. Sú tegund glæpa sé sérstaklega óforskömmuð, því að unnið sé markvisst að því að misnota traust og vonir fórnarlamba. Dæmi eru um að fólk hér á landi hafi tapað fé til slíkra svikara sem standa að slíku svindli.

Glæpir tengdir ástarsvindli hafa aukist mikið með tilkomu samfélagsmiðla. Þá villa glæpamenn á sér heimildir og notast við myndir af venjulegu fólki sem þeir hafa stolið. Þau sem fyrir svindlinu verða halda því að þau eigi í samskiptum við venjulegt fólk en hafa ekki hugmynd um að á bak við er hópur svikahrappa. Þegar þeir hafa myndað trúnaðarsamband við fólkið biðja þeir um ýmsa greiða. Þeir segja til dæmis að þá vanti peninga til að koma í heimsókn og hitta viðkomandi í fyrsta sinn.

Oftast eru glæpamennirnir í útlöndum og undir fölsku nafni því erfitt fyrir lögreglu hér á landi að komast í samband við þá. Í tilkynningu lögreglunnar segir að fólk sem lendi í slíku fyllist oft skömm fyrir að hafa látið blekkjast. Lögreglan leggur áherslu á að brotin séu ekki fórnarlömbum að kenna, glæpahóparnir beiti þróuðum aðferðum til að brjóta varnir fólks niður. Góð regla sé að velja vini sína á samfélagsmiðlum vel og hunsa vinabeiðnir frá ókunnugum.

Dagný Hulda Erlendsdóttir