Ljóst að búnaðurinn stenst kröfur

09.01.2018 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd: -  -  wikipedia.org
Framkvæmdastjóri Akvafuture, sem hyggst reisa 20.000 tonna laxeldi í Eyjafirði, segir búnaðinn sem fyrirtækið notar standast allar kröfur. Hann gefur lítið fyrir gagnrýni Landssambands veiðifélaga vegna áformanna.

Gefur lítið fyrir gagnrýni Landssambandsins

Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akvafuture, segir í skriflegu svari til Fréttastofu að búnaðurinn sem AkvaDesign AS, sem er móðurfélag Akvafuture, hefur hannað og þróað sé vottaður með norska staðlinum NS9415 sem stuðst er við í reglugerðum varðandi fiskeldi á Íslandi.

„Því er ljóst að búnaðurinn stenst þær kröfur sem gerðar eru til búnaðar við fiskeldi við Ísland,” segir hann. Tilefnið er tilkynning frá Landssambandi veiðifélaga þar sem alfarið er lagst gegn áformum fyrirtækins um eldið. Að mati Landssambandsins er ótímabært með öllu að ráðast í þær framkvæmdir, þar sem eldiskvíarnar hafi verið notaðar í skamman tíma í Noregi og því óljóst hversu fiskheldar þær eru, meðal annars vegna þess að búnaðurinn þoli einungis tveggja metra ölduhæð. Þá eru kvíarnar lokaðar, en ekki opnar. 

Ekki meira en tveggja metra ölduhæð

Við þessu segir Rögnvaldur að fyrirtækið hafi fengið Vegagerðina til að gera öldufarsreikninga í innanverðum Eyjafirði og þar kemur fram að 50 ára hafalda sé á bilinu einn til 1,8 metrar á fyrirhugðum eldissvæðum og 50 ára vindalda á bilinu 1,4 til tveir metrar. 

Gæti tekið um 5 til 8 ár

„Við óskum samráðs og samvinnu við heimafólk og hagsmunaaðila á þeim stöðum sem við sækjum um leyfi til laxeldis. Við leggjum mikla áherslu á að vera í sátt við umhverfið og höfum fiskivelferð að leiðarljósi í allri okkar starfsemi,” segir Rögnvaldur. „Við sækjum um allt að 20.000 tonna framleiðslu í Eyjafirði, en það mun taka tíma að byggja upp þá stærð af starfsemi, jafnvel allt að 5 til 8 ár.”

Engin laxalús

„Búnaðurinn hefur verið í þróun undanfarin 10 ár og tilraunaframleiðsla hefur staðið frá árinu 2011 en framleiðsla í stórum stíl hófst á síðasta ári og höfum við framleitt um 2.000 tonn af matfiski í lokuðum kvíum,” segir Rögnvaldur. „Við höfum ekki orðið fyrir því að fiskur sleppi úr kvíunum enda erum við með lokaðan poka og eldisnót þar utan um ef svo ólíklega vildi til að lokaði pokinn brysti.”

Hann segir stærsta áhættuþáttinn við laxeldi í sjó vera laxalús, en það sé staðfest að laxalúsin þrífist ekki í búnaði Akvafuture. 

Mynd með færslu
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV