Listar um örugg ríki ráði ekki afgreiðslu

12.08.2017 - 19:43
Rauði krossinn leggst ekki gegn því að afgreiðslu umsókna um hæli verði hraðað en leggur áherslu á að það verði ekki til þess að of stór hluti umsókna verði felldur undir hugtakið tilhæfulausar umsóknir. Þetta segir Arndís A. K. Gunnarsdóttir, talsmaður hælisleitenda hjá Rauða krossi Íslands.

Starfsmönnum Útlendingastofnunar sem fjalla um umsóknir hælisleitenda verður fjölgað um tíu. Þetta er gert til að flýta afgreiðslu umsókna. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í kvöldfréttum að nýtt verklag þýddi að umsóknir væru afgreiddar hraðar en áður, jafnvel á sólarhring ef fólk kæmu frá löndum sem eru á lista yfir örugg ríki.

Arndís sagði í kvöldfréttum sjónvarps að Rauði krossinn hefði lengi kallað eftir því að afgreiðslutími umsókna um hæli styttist. Hún sagði þetta þó vera spurningu um skilgreiningar. „Þar höfum við fyrst og fremst lagst gegn notkun stjórnvalda á  þessum listum yfir svokölluð örugg ríki, þar sem ofsóknir eru iðulega persónulegar og geta komið upp hvar sem er,“ sagði Arndís.

Dómsmálaráðherra hefur sérstaklega tiltekið fjölgun hælisleitenda frá Georgíu, sem er á lista yfir örugg ríki. „Í þessu samhengi er áhugavert að að líta til þess að það er ekki lengra síðan en í apríl að tveimur einstaklingum frá Georgíu var veitt alþjóðleg vernd vegna stjórnmálaofsókna,“ sagði Arndís í kvöldfréttum sónvarps. Hún sagði fólk frá Georgíu aðallega flýja af pólitískum ástæðum, svo sem vegna spillingar. Að auki hefðu efnahagsleg vandamál áhrif. „Það er engin ástæða til þess að gera lítið úr ástæðum þess að fólk leggur upp í ferð sem þessa, jafnvel með fjölskyldu með í för.

Arndís sagði augljóst að sumir einstaklingar sem koma hingað hefðu fengið rangar upplýsingar og að þegar við komuna væri ljóst að það fólk félli ekki undir alþjóðlega vernd. Hún sagði ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða mjög hratt umsóknir þar sem sú staða væri uppi og fólkið sjálft héldi því ekki fram að það félli undir alþjóðlega vernd. „Það sem við höfum áhyggjur af er að það sé of stór hluti umsókna settur undir þetta hugtak: tilhæfulausar umsóknir sem við teljum að þurfi að fá almennilega skoðun engu að síður.“ Hún sagði eðlilegt að forgangsraða eftir einstaklingsbundnum aðstæðum en lagði áherslu á að skoða þyrfti hvert mál á einstaklingsbundnum forsendum.