Lífseig vinátta

11.08.2017 - 14:30
Agi og einlæg vinátta er á meðal þess sem stúlkur fengu með sér í veganesti frá Kvennaskólanum. Þetta er samdóma álit vinkvennahóps sem hefur fylgst að í sjötíu ár, í gleði og sorg. Þær hittast enn í hverjum mánuði.

Í gær var margt um manninn í stofunni hjá Marie Bögeskov. Það var komið að henni að halda boð fyrir vinkonur sínar. Þær hafa hist svona áratugum saman. Fundirnir voru lengi haldnir í Perlunni, en svo ákváðu þær að flytja þá í heimahús. Og vináttan stendur á gömlum merg.

„Við fermumst þarna um vorið og byrjum í september 1948. Þar stóðum við allar skjálfandi á tröppunum á Kvennaskólanum. Við sem vorum utan af landi vorum ekki eins vel settar og þær sem áttu sín heimili hér í Reykjavík,“ segir Arnleif K. Ívarsdóttir.

Stúlkurnar brögguðust fljótt, undir styrkri handleiðslu kennaranna, og sögurnar af uppfræðslunni fjúka yfir kaffibollunum:

 

„Einhverntímann var fröken Ragnheiður úti og ein skildi eftir opið hliðið. Og sagði: standið allar upp og segið mér hver skildi eftir opið hliðið!“  segir ein.

„Ekki man ég eftir þessu,“ segir önnur, og hinar taka við:

„Við vorum í öðrum bekk!“ 

„Maður gleymdi aldrei að loka hliðinu!“ 

„Rannveig hafði gleymt því, hún kom hlaupandi!“ 

„Ég man eftir því að hurðin skall, og ég varð að fara aftur út og loka og koma inn, og loka almennilega!“ 

Arnleif bætir við: „Maður lærði líka upp á lífstíð að ganga um hurðir. Ekki káfa á tréverkinu heldur alltaf að taka um húninn. Svona var maður agaður til. Og mér finnst maður bara búa að þessu alla ævi.“

Aginn þótti asnalegur

Rannveig Jónsdóttir var ekki eins hrifin af aganum. Hún hætti síðar í skólanum, fór í Menntaskólann í Reykjavík og varð stúdent þaðan.

„Það var mikill agi. Sem okkur fannst mjög asnalegur stundum, og við vorum mjög gagnrýnar á skólastýruna og kennarana. En maður hafði mjög gott af þessu, það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari,“ segir hún.

Í þá tíð útskrifuðust stúlkur sautján ára, og hefði þótt fásinna að einhvern tímann myndu piltar útskrifast úr Kvennaskólanum. 

Arnleif segir að skólastýran hafi getað valið úr bestu einkunnunum.

„Þess vegna var sagt að það væri svo gott að fá kvennaskólastúlkur á skrifstofurnar. Þetta þótti svo rosalega góð menntun í þá daga. Ég hugsa ekki síðra en að vera viðskiptafræðingur eða hagfræðingur í dag,“ segir hún og hlær.

Sárt þegar vinkonunum fækkar

Arnleif er ritari vinkvennahópsins, og hefur haldið fundargerðarbók um áratugaskeið. Þar eru myndir og frásagnir af fundunum, en í seinni tíð hafa bæst við dánartilkynningar. Það er sárt að kveðja góðar vinkonur.

„Heyrðu, áttu ekki bara að vera tveir réttir? Þetta eru fjórir!“ gellur í vinkonunum þegar Marie vísar þeim að drekkhlöðnu kaffiborðinu, og það er komið að meira spjalli og fleiri sögum. 

 

„Þetta er ómetanlegur vinskapur á efri árum,“ segir Arnleif, og bætir við: „þó maður sé nú farinn að finna fyrir aldrinum. En þetta hefur reynst svo vel.“

 

Rannveig tekur í sama streng: „Þær eru svo skemmtilegar. Svo ágætar.“

 

Mynd með færslu
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV