Leyfa KS að eignast annað flutningafyrirtæki

10.01.2018 - 16:58
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að heimila kaup flutningsfyrirtækisins Vörumiðlunar á Sauðárkróki á Fitjum-vörumiðlun í Reykjanesbæ. Eftirlitið tekur hins vegar ekki afstöðu til þess hvort samningar sem félögin tvö hafa gert við Eimskip og Samskip standist samkeppnislög og segir að það kunni að koma til athugunar síðar.

Vörumiðlun ehf. er þriðja stærsta flutningsfyrirtæki landsins, á eftir dótturfélögum Eimskips og Samskips. Það er að fullu í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og sinnir einkum vöruflutningum á milli höfuðborgarinnar og byggðalaga á Norðvesturlandi og í Dölunum. Fitjar-vörumiðlun hét áður Flutningaþjónusta Gunnars og flytur fyrst og fremst vörur um Reykjanes og þaðan til Reykjavíkur. Samkeppniseftirlitinu var tilkynnt um kaupin í ágúst í fyrra.

Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að félögin hafi sinnt flutningum á ólíkum leiðum og hafi því ekki starfað á nákvæmlega sama markaði í þeim skilningi. 

Umtalsverð samvinna við helstu keppinautana

Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins segir svo frá rökstuðningi félaganna tveggja fyrir því að samruninn yrði góður fyrir samkeppni: „Að mati samrunaaðila er líklegt að samruninn muni leiða til þess að til verði félag sem muni geta veitt Eimskip og Samskipum öflugri samkeppni sem mun ef að líkum lætur leiða til hagsbóta fyrir viðsemjendur samrunaaðila og með óbeinum hætti neytendur.“

Samkeppniseftirlitið bendir á móti á að bæði félögin hafi gert samninga við Eimskip og Samskip um samstarf. „Í þessum samningum felst umtalsverð viðskiptaleg samvinna samrunaaðila á sviði landflutninga við þau fyrirtæki sem þeir telja helstu keppinauta sína,“ segir í niðurstöðunni. Félögin segja að komi til samruna þeirra gæti skapast tækifæri til að taka upp samningana við Eimskip og Samskip.

Samkeppniseftirlitið tekur ekki afstöðu til þess hvort samningarnir eru í samræmi við samkeppnislög, en óskar eftir því að fá upplýsingar um það ef samningarnir taka breytingum.

Endanleg niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er þó sú að samruninn leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða myndist eða að samkeppni raskist með umtalsverðum hætti. Því er hann heimilaður.

 

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV