Leikhússtjóra sagt að víkja tafarlaust

Innlent
 · 
#Metoo
 · 
Akureyri
 · 
Konur gegn kynferðisáreitni
 · 
Leiklist
 · 
Norðurland
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson

Leikhússtjóra sagt að víkja tafarlaust

Innlent
 · 
#Metoo
 · 
Akureyri
 · 
Konur gegn kynferðisáreitni
 · 
Leiklist
 · 
Norðurland
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
10.01.2018 - 11:49.Sunna Valgerðardóttir
Stjórn Menningarfélags Akureyrar (MAK) og framkvæmdastjóri hafa krafist þess að Jón Páll Eyjólfsson láti strax af störfum sem leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar vegna trúnaðarbrests. Uppsögnin tengist #metoo-byltingunni, samkvæmt heimildum fréttastofu. Hann féllst á að hætta tafarlaust að loknum fundi með stjórninni í gær. Áður hafði verið samþykkt af stjórn MAK að Jón Páll mundi vinna út leikárið.

Tengist #metoo

Í yfirlýsingu sem birt var á síðu MAK laust fyrir hádegi segir að stjórnin og framkvæmdastjórinn, Þuríður Helga Kristjánsdóttir, hafi tekið ákvörðun um að Jón Páll „starfi ekki út uppsagnarfrest sinn heldur ljúki störfum nú þegar. Byggist sú ákvörðun á því að ekki ríkir lengur traust um hans störf hjá félaginu.” Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist uppsögn Jóns Páls #metoo byltingunni. 

Þuríður Helga segir í samtali við fréttastofu að þetta hafi tekið þennan tíma um að komast að þeirri niðurstöðu að hann mundi ljúka störfum tafarlaust. Jón Páll hafi ekki lengur notið trausts sem leikhússtjóri og því hafi þessi ákvörðun verið tekin. Hún tjáir sig ekki að öðru leyti um hans mál. 
Fréttastofa hefur ekki náð í Jón Pál í morgun.  

Sagði ástæðuna vera fjárhagsvandræði leikfélagsins

Jón Páll sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook 20. desember þar sem hann sagðist hafa ákveðið að segja upp störfum sem leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar (LA). Þar sagði hann ástæðuna vera skortur á fjármagni og erfitt rekstrarumhverfi félagsins. Þá var samþykkt af stjórn MAK og Jóni Páli að hann mundi starfa sem leikhússtjóri út leikárið. Hann óskaði eftir því að ljúka leikárinu með því að frumsýna „Sjeikspír eins og hann leggur sig” í byrjun mars, sem hann leikstýrði, en nú liggur fyrir að það þurfi að finna nýjan leikstjóra til þess að ljúka því verki. Jón Páll var ráðinn leikhússtjóri í desember 2014.

Framkvæmdastjóri vildi ekki tjá sig um uppsögnina

Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri MAK, vildi ekkert segja um uppsögn Jóns Páls í desember þegar eftir því var leitað og sagðist ekki vilja tjá sig um „persónuleg málefni starfsmanna.” Í yfirlýsingu sem MAK sendi frá sér þann dag kom fram að stjórnin hefði samið við hann um að klára yfirstandandi leikár og þakkaði honum fyrir vel unnin störf og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir LA og MAk.

Fréttin var uppfærð klukkan 12:18 eftir að náðist í framkvæmdastjóra MAK.

Tengdar fréttir

Norðurland

Vill ekki tjá sig um uppsögn Jóns Páls

Leiklist

Jón Páll hættir sem leikhússtjóri