Leiðangrar Vigfúsar Grænlandsfara

Alfred Wegener
 · 
Bókmenntir
 · 
Grænland
 · 
Vigfús grænlandsfari
 · 
Vigfús Sigurðsson
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Leiðangrar Vigfúsar Grænlandsfara

Alfred Wegener
 · 
Bókmenntir
 · 
Grænland
 · 
Vigfús grænlandsfari
 · 
Vigfús Sigurðsson
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
11.02.2018 - 10:55.Guðni Tómasson.Víðsjá
Vigfús Sigurðsson (1875-1950) gekk undir viðurnefninu Grænlandsfari, enda fór hann í þrjá ævintýralega leiðangra til Grænlands á fyrri hluta síðustu aldar. Jarðfræðingurinn Árni Hjartarsson rifjaði upp ferðir Vigfúsar en nú hafa dagbækur hans verið gefnar út. Rætt var við Árna í Víðsjá en heyra má umfjöllunina í spilaranum hér fyrir ofan.

Dagbækur Vigfúsar Sigurðssonar koma út í ritröðinni Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar en það var barnabarn Vigfúsar Sigurðssonar, Vigfús Geirdal sagnfræðingur sem gekk að mestu frá dagbókum afa síns, en hann náði þó ekki að klára verkið því hann lést árið 2016. Ritið heitir Grænlandsfarinn - dagbækur Vigfúsar Sigurðssonar og þrír leiðangrar hans. Þar fá lesendur innsýn í þrjá ævintýralega leiðangra sem Vigfús fór í til Grænlands, fyrst 1912-13 með vetursetu á jöklinum og síðan í tvo aðra í kringum 1930.

Árni Hjartarson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, þekkir vel til þessara leiðangra og las nýju bókina yfir í handriti. Árni segir að Vigfús Sigurðsson hafi verið vanur fjallamaður og hestamaður, fyrrum póstur á erfiðri póstleið á Norðausturlandi. Hann var á öðrum áratug 20. aldar búsettur á ásamt fjölskyldu sinni á Álftanesi þegar hann rekst á auglýsingu sem vakti athygli hans.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Hestar á leið til Grænlands
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Vigfús og félagar á jökli. Koch landmælingamaður í miðið, Vigfús vinstra megin.

„Þar var auglýst að það standi til leiðangur yfir þvert Grænland undir forystu danska landmælingamannsins Johans Peter Koch, en með í för var óþekktur Þjóðverji, Alfred Wegener,“ segir Árni, en Wegener er í dag þekktur sem faðir landrekskenningarinnar, hvernig meginlöndin hafa færst til á jarðskorpunni.

„Þeir höfðu ákveðið að taka með íslenska hesta í ferðina og Vigfús sem aðstoðarmaður átti að sjá um þá. Þeir Koch og Wegener réðu hann en vissu það ekki þá að hann var þúsund þjala smiður, smíðaði allt bæði í tré og járn og var auk þess góður vélamaður,“ segir Árni sem er á því að tilkoma Vigfúsar í hópinn hafi verið lífsnauðsynleg leiðangursmönnum. „Vigfús gerði við biluð mælitæki eða bjó til ný. Þeir hefðu steindrepist á jöklinum ef þeir hefðu ekki haft mann eins og Vigfús.“

Risi í vísindum 20. aldar

Alfred Wegener er almennt talinn eitt af stærstu nöfnum vísindanna á 20. öld þó að menn hafi ekki áttað sig fyllilega á mikilvægi kenninga hans á meðan hann var á lífi. „Wegener er nafn á borð við Einstein og Darwin, eitt þessara nafna sem seinni tíma vísindi byggja á. Hann hafði flutt sinn fyrsta fyrirlestur um landrekskenninguna skömmu áður en hann fór í fyrsta leiðangurinn í slagtogi við Vigfús. Þeir byrjuðu á því að reyna íslensku hestana á Vatnajökli, sem vakti auðvitað mikla athygli, en einmitt um þetta leyti stóð kapphlaupið um pólana tvo sem hæst.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Leiðin 1912-13 lá yfir Grænland þar sem jökullinn er breiðastur. (Óbrotna línan)

Eins og áður sagði eru í nýju bókinni dagbókarfærslur Vigfúsar úr þremur leiðöngrum til Grænlands. Sá fyrsti (1912-13) þykir þeirra merkastur af því að þá fóru leiðangursmenn yfir jökulinn mikla þar sem hann er breiðastur og höfðu vetursetu á jökli.

Eikarbáturinn Gotta

Árið 1929 stofnaði Vigfús hlutafélagið Eiríkur rauði hf. Stofnun þess var eitt af skilyrðum sem Alþingi setti fyrir því að veita styrk til Grænlandsferðar. Ferðin var farin á 35 tonna eikarbáti úr Vestmannaeyjum, sem hét Gotta og var leiðangurinn því kallaður Gottuleiðangurinn. Ellefu menn voru í ferðinni og Vigfús annar tveggja leiðangurstjóra. Ætlunin var að koma aftur með óvenjulegan farm, nefnilega sauðnaut. Aðgerðin var blóðug og heimkomin drápust sauðnautin öll með tölu. Skömmu síðar fór Vigfús í annan leiðangur með Wegener árið 1930, en þýski vísindamaðurinn lést í þeim leiðangri.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Alfred Wegener á Grænlandsjökli 1930. Hann lést í leiðangrinum.

Frá hluta þessarar merku sögu greinir Árni í innslaginu sem má heyra hér að ofan, en hann segir dagbækur Vigfúsar gott dæmi um það að þeir sem stundi vísindi átti sig oft ekki á mikilvægi starfa sinna þegar þeir eru í hringiðunni miðri. „Til dæmis var Wegener nýbúinn að setja kenninguna um landrekið fram þegar hann ferðaðist yfir sprungurnar í Ódáðahrauns og hann áttar sig ekkert á því að hann er staddur á flekaskilum, á lykilstað í þeirri miklu kenningu. Hann fór því miður ekki til Þingvalla þegar hann var hér, en þá hefðu eflaust runnið upp fyrir honum ljós,“ segir Árni.

Rætt var við Árna Hjartarson  í Víðsjá og viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan, en nánar má lesa um ferðir Alfreds Wegener á Grænlandsjökul hér.