Landsnet: Takmörk fylgi jarðstrengjum

11.01.2018 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet  -  landsnet.is
Hugmyndir um að skipta út tæplega 200 kílómetrum af loftlínum fyrir jarðstrengi, til að auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, eru óraunhæfar að mati starfsmanns Landsnets. Orkubússtjóri telur að það sé lykilatriði fyrir afhendingaröryggi að raforka sé framleidd á Vestfjörðum.

 

Magn jarðstrengja óraunhæft

Landvernd kynnti í gær skýrslu um afhendingaröryggi á Vestfjörðum og um hvernig jarðstrengir geti aukið öryggi afhendingar á Vestfjörðum til muna. Þar kemur fram að með því að skipta loftlínum út fyrir jarðstrengi megi tífalda raforkuöryggi Vestfirðinga. Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs hjá Landsneti, segist fagna auknum áhuga á flutningskerfinu en gagnrýnir að ekki sé fjallað um takmörk jarðstrengja í skýrslunni: „Í rauninni er niðurstaðan á þann veg að það sé hægt að ná einhverjum árangri með því að leggja þessa 194 kílómetra í jörð en það held ég að sé algjörlega óraunhæft að ná svo miklu.“ Sverrir segir að jarðstrengir og loftlínur hagi sér á ólíkan hátt í raforkukerfinu. Svokölluð rýmdaráhrif jarðstrengja séu mun meiri en loftlína. Það valdi því að erfitt geti verið að stýra spennunni ef of mikið er af jarðstrengjum.

Blandaðar lausnir vænlegar

„Það sem er kannski vænlegast á svæðinu er að efla tengingar milli svæðanna og kjarnanna þar og þá erum við að horfa á lausnir sem eru bæði jarðstrengir og loftlínur. Ekki taka annað út fyrir hitt heldur hafa eitthvað bland.“ Í drögum að kerfisáætlun Landsnets, sem var þó hafnað af Orkustofnun, er gert ráð fyrir hringtengingum inni á Vestfjörðum til að bæta raforkuöryggið. Elías Jónatansson, Orkubússtjóri á Vestfjörðum, segir ljóst að jarðstrengir séu öruggari en loftlínur en gagnrýnir að skýrslan, sem Landvernd kynnti í gær, taki ekki heilstætt á þeim upplýsingum sem þó liggi fyrir, eins og um fyrirhugaðar hringtengingar helstu byggðakjarna á Vestfjörðum.

Mikilvægt að framleiða raforku sem næst byggðakjörnum

Elías telur það lykilatriði að Vestfirðir framleiði meiri orku en þeir noti til að vera ekki háðir Vesturlínu um að flytja raforku inn á Vestfirði. Vesturlína er eina leið raforku um flutningskerfi Landsnets inn á Vestfirði og liggur frá Hrútafirði í Mjólká. Í skýrslunni er til dæmis ekki gert ráð fyrir því að Vesturlína fari í jörð nema að hluta og því telur Elías óraunhæft að segja að raforkuöryggið batni tífalt þar sem bilanir séu einnig algengar á austari hluta Vesturlínu. Elías telur mikilvægt að raforka sé framleidd sem næst byggðakjörnunum og hringtengingu þeirra: „Okkur vantar, til að tryggja öryggið sem mest, orkuframleiðslu inn á þennan hring - sem næst okkur.“ Hann segir margar hugmyndir um virkjanir fyrir vestan þótt ljóst sé að ekki verði af þeim í einu vetfangi. Ef nægileg orka er framleidd á Vestfjörðum sjálfum geti því Vesturlína orðið að varaleið fyrir raforku inn á Vestfirði. 

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV