Landsleikurinn verður sýndur á RÚV

25.03.2015 - 17:40
epa00968902 Iceland's national soccer team striker Eidur Gudjohnsen smiles during the press conference on Tuesday 27 March 2007 in Palma de Mallorca ahead of their Eurocup 2008 qualifyer match against Spain on Wednesday 28 March at the Ono stadium.
 Mynd: EPA  -  EFE
Það anda eflaust margir knattspyrnuáhugamenn léttar í dag.

Ástæðan er einföld: landsleikur Kasakstan og Íslands í undankeppni EM verður sýndur beint á RÚV.

Um tíma leit út fyrir að ekkert yrði að beinini útsendingu vegna boðaðs verkfalls tæknimanna hjá RÚV en nú hefur félagsdómur komist að þeirri niðurstöðu að boðað verkfall sé ólöglegt. Það átti að hefjast í fyrramálið.

Fyrsta hrina verkfallsins átti að standa yfir í fjóra daga og ljúka á nk. mánudag. Það hefði þýtt að landsleikurinn hefði ekki verið sendur út.

Samningamenn Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sitja enn á samningafundi hjá Ríkissáttasemjara. Rafiðnaðarsambandið krefst þess að Samtök atvinnulífsins, sem hafa samningsumboðið fyrir hönd RÚV, geri sérkjarasamning við tæknimennina. Því hefur SA neitað og kærði verkfallsboðunina til Félagsdóms, sem kvað upp sinn úrskurð rétt fyrir klukkan fimm.

Nýtt samningstilboð kom frá RÚV í dag þess efnis að hluti samnings verði sérstaklega við RÚV. Samninganefnd Rafiðnaðarsambandsins hyggst fara yfir tilboðið í dag og á morgun en nýr fundur hefur verið boðaður í deilunni kl. 10 á föstudagsmorgun.

Það er því ljóst að fjölmargir stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins, fá að horfa á landsleikinn á laugardaginn klukkan þrjú í beinni útsendingu á RÚV.

Benedikt Grétarsson
íþróttafréttamaður