Landlæknir metur viðbrögð við dómi yfir Sinnum

10.10.2017 - 15:09
Sjúkrahótel Sinnum ehf er rekið í þessu húsi við Ármúla.
 Mynd: RÚV Kastljós
Embætti landlæknis er að skoða og meta viðbrögð embættisins við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir einkarekna heimahjúkrunarfyrirtækinu Sinnum vegna dauða átta ára stúlku. Í dóminum kemur fram að í tilkynningu frá Sinnum til Landlæknis segi að starfsmaður sem annaðist stúlkuna hafi verið sérþjálfaður en samkvæmt dóminum hafði hún enga formlega menntun umfram grunnskólanám og ekkert benti til að hún hafi fengið nægilega fræðslu um umönnun barna í öndunarvél.

Sýndu af sér stórfellt gáleysi

Viðbrögð Landlæknis við dóminum liggja ekki fyrir. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn fréttastofu um áhrif dómsins á starfsleyfi og starfsemi fyrirtækisins. Samkvæmt dóminum var andlát stúlkunnar rakið til þess að stjórnendur Sinnum sýndu af sér stórfellt gáleysi með því að setja ófaglærðan starfsmann í aðstæður sem hún gat ekki ráðið við.

Sinnum var dæmt til að borga Rögnu Erlendsdóttur þrjár milljónir króna í miskabætur fyrir mistök starfsmanns sem leiddu til dauða átta ára dóttur Rögnu, Ellu Dísar Laurens. 

Ella Dís fæddist árið 2006 og þjáðist frá 15 mánaða aldri af ólæknandi taugasjúkdómi. Hún þurfti af þeim sökum alla tíð mikla aðstoð og umönnun, meðal annars eftir að hún hóf grunnskólagöngu í janúar 2013. Þá gerði Reykjavíkurborg samning við Sinnum um þjónustu við Ellu Dís í skólanum, þar sem hún var í sérstökum vinnustól og hafði aðstöðu með tækjum og sjúkrarúmi ef hún þyrfti að hvíla sig. Hún var tengd við öndunarvél í gegnum barkatúbu í hálsi.

Að jafnaði fékk Ella Dís fylgd þroskaþjálfa í skólann en í mars 2014 forfallaðist hann og þá var annar, ófaglærður starfsmaður fenginn til að fylgja henni. Þann dag færðist öndunartúba Ellu Dísar úr stað þegar hún var færð yfir í vinnustól, með þeim afleiðingum að súrefnismettun hennar féll og hún hlaut af mikinn heilaskaða sem að lokum dró hana til dauða. Hún lést tæpum þremur mánuðum síðar.

Sögðu starfsmanninn sérþjálfaðan þegar hann var bara með grunnskólapróf

Í dóminum segir að Sinnum vísi til þeirrar niðurstöðu Landlæknis að þetta hafi verið óhapp, en Landlæknir studdist við gögn og upplýsingar sem komu fram í tilkynningu Sinnum til embættisins um atvikið. Samkvæmt þeim gögnum hafi starfsmaðurinn verið sérþjálfaður, hafi þekkt barnið og nýlega fengið tveggja daga kennslu hjá þroskaþjálfa sem alla jafna sinni því. Hvorki tilkynningin sem send var landlækni né gögn sem henni fylgdu voru lögð fram fyrir dómi.

Niðurstaða dómsins var aftur á móti sú að starfsmanninn hafi skort tilfinnanlega nauðsynlega þekkingu og reynslu til starfans. Hún hafði enga formlega menntun umfram grunnskólanám og ekkert benti til að hún hafi fengið nægilega fræðslu um umönnun barna með barkaraufarrennu sem eru háð öndunarvél, eða verklega þjálfun í að soga niður í barkaraufartúbu, anda fyrir sjúkling með Ambu belg eða skipta um barkaraufartúbu á skjótan og öruggan hátt, segir í dóminum.