Landhelgisgæslan leigir ekki þyrluna

13.01.2018 - 13:59
Mynd með færslu
 Mynd: Tómas Atli Einarsson
Þyrla landshelgisgæslunnar verður ekki leigð út til annarra landa til að afla tekna, líkt og rætt hafði verið um. Stoppað verður upp í milljóna tuga gat í fjarhagsáætlun ársins með öðrum hætti.

Eins og fram hefur komið í fréttum vantar rúmar sextíu milljónir upp á tekjuhliðina í fjárhagsáætlun landshelgisgæslunnar. Það gat er til komið vegna gengismismunar og kom í ljós við afgreiðslu fjáraukalag fyrir árið 2017. Forstjóri gæslunnar hefur sagt að til greina komi að leigja eina af þyrlunum til Noregs til að afla tekna. Nú hefur hinsvegar verið fallið frá þeim hugmyndum.

Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir að stjórnendur Gæslunnar hafi fundað í vikunni með embættismönnum í dómsmálaráðuneytinu. 

„Niðurstaða þess fundar var að það ætti ekki að leigja þyrluna, TF Sýn, út en í staðinn ætti Gæslan að finna leið til að hækka sértekjurnar með öðrum hætti. Við erum ekki búin að finna þær leiðir, eins og sakir standa, enda er þetta tilkomið mjög nýlega, en það ætti að koma í ljós síðar,“ segir Sveinn.

En er þá gæslunni samt sem áður gert að afla þessara tekna sem upp á vantar? „Einhvernveginn verður allaveganna að stoppa upp í þetta gat og sem stendur viljum við frekar reyna að afla tekna en að draga úr þjónustu,“ segir Sveinn.

Hann segir nokkrar hugmyndir vera til um tekjumöguleika. „Ein leið sem við hjá Gæslunni erum ekki alveg ókunn er tildæmis að leigja flugvélina TF Sif til Frontex, lengur en við stefndum að í upphafi ársins. En þetta verður að koma í ljós.“

 

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður