Króatar áhugasamir um Arnór Þór og Aron Einar

14.01.2018 - 13:00
„Við vorum bara vel undirbúnir fyrir leikinn á móti Svíum og horfðum á mikið af myndböndum af þeim fyrir leikinn. Mér fannst við ótrúlega flottir í 45 mínútur á móti þeim,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson landsliðsmaður í handbolta þegar RÚV ræddi við hann á hóteli íslenska landsliðsins í Split í Króatíu í gær. Arnór talaði einnig um að leikmenn Íslands hefðu spilað með hjartanu í leiknum, fyrir land og þjóð.

Þau orð eru svipuð og bróðir hans, Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði í fótbolta lætur oftar en ekki út úr sér í kringum fótboltalandsleiki. Í gögnum um íslenska liðið fyrir EM í Króatíu sem dreift var til fjölmiðla er sérstaklega tekið fram að Arnór sé eldri bróðir Arons Einars. 

Örugglega ekkert algengt

„Eftir leikinn við Svía voru tveir króatískir fjölmiðlar sem vildu fá mig í viðtal vegna leiks okkar við Króatíu fram undan og svo líka vegna leiks Íslands og Króatíu á HM í fótbolta í Rússlandi í sumar. Þeir voru aðeins að spyrja mig út í Króatana bæði í handboltanum og fótboltanum. En ég var nú bara rólegur yfir þessu. Ég held að erlendum blaðamönnum finnist það skrítið að ég sé í handboltalandsliðinu og bróðir minn í fótboltalandsliðinu. Ég held að þetta sé ekkert algengt í íþróttaheiminum,“ sagði Arnór um áhuga erlendra fjölmiðla á honum og Aroni Einari.

Arnór fór á sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðinu á HM 2013 í Spáni og spilar nú á sínu sjötta stórmóti. „Í fyrsta sinn eru mamma og pabbi núna mætt á stórmót hjá mér. Þau voru alveg rosalega ánægð með stigin tvö á móti Svíþjóð og kíktu svo í heimsókn hingað á hótelið eftir leikinn og voru alsæl með þetta og líka bara með Split. Þeim finnst frábært að vera komin hingað,“ sagði Arnór Þór.

Býr sig undir hörku í kvöld

Arnór býst eðlilega við erfiðum leik á móti Króatíu á EM í kvöld. „Þeir eru auðvitað á heimavelli. Króatarnir eru líka þekktir fyrir það að spila ótrúlega hart, en líka hratt þegar þeir eru heima. En við þurfum bara að undirbúa okkur vel,“ sagði Arnór Þór sem undirbýr sig fyrir hörku á móti Króatíu í kvöld.

Leikur Íslands og Króatíu hefst kl. 19:30 og verður sýndur beint á RÚV. Þá verður leiknum einnig lýst sérstaklega í útvarpinu á Rás 2.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður